Fyrsta hundrað laxa hollið kom í Miðfirði um helgina. Samtals landaði hollið á þremur dögum 102 löxum á tíu stangir. Sérstaka athygli vekur að á laugardag þegar stíf norðanátt stóð allan daginn lönduðu veiðimenn í Miðfirðinum 39 löxum.
Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í Miðfirði sagði í samtali við Sporðaköst í dag að töluvert af fiski væri að ganga. Hann nefndi sem dæmi að á svæði tvö í mörgun lönduðu veiðimenn sex löxum og voru þeir allir grálúsugir.
Miðfjarðará hefur um árabil verið ein af betri náttúrulegu laxveiðiám landsins. Einhvern veginn virðist hún alltaf endurheimta sína laxa þrátt fyrir erfið ár í mörgum ám.
Þrátt fyrir Covid hefur Miðfjarðará náð að halda í sína viðskiptavini og hefur áin verið mönnuð útlendingum að stórum hluta í júlí. Eins og Sporðaköst greindu frá í sumar þá hefur Rafn látið framleiða sitt eigið kampavín og kunna gestir vel að meta það. Menn sem ferðast á þyrlum milli laxveiðiáa kunna að meta svona kræsingar. Veiðiferðir útlendinga til Íslands snúast ekki bara um fjölda laxa. Þetta er ferðaþjónusta af dýrust gerð. Rafn Valur sagði ótrúlega gaman að fá til baka hrós frá viðskiptavinum. Þyrlumennirnir skrifuðu þannig póst eftir ferðina, að þetta væri ótrúlega vel smurð vél í Miðfirðinum. Matur, veiði, leiðsögumenn og náttúra féll allt á einn veg.
Góður gangur er í veiðinni í Vopnafirði. Þannig skilaði síðasta þriggja daga holl í Hofsá 73 löxum. Selá er einnig að skila ágætri veiði. Miðfjarðará í Bakkafirði er komin í 110 laxa en þar er einungis veitt á tvær stangir. Gísli Ásgeirsson leigutaki í Vopnafirði sagði í samtali við Sporðaköst að svo virtist sem árnar sem Veiðiklúbburinn Strengur væri með á sínum snærum væru í fínu standi.
Í fyrra var Selá með einna bestu meðalveiði per stöng en forvitnilegt verður að sjá hvernig Hofsá kemur út úr þeim útreikningum þar sem áin er að byrja mjög vel og oft er síðsumarið besti tími Hofsár.
Kristján Páll Rafnsson, einn af leigutökum Tungufljóts í Vestur Skaftafellssýslu segir laxinn kominn í fljótið. Hann fór nýlega til veiða og setti í fjóra laxa og landaði þremur.
Vestur Skaftafellssýsla er ekta síðsumars svæði, bæði hvað varðar sjóbirting og lax. En hann er mættur í Tungufljótið og það veit á gott þó svo að sú á sé þekktust fyrir sjóbirting.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |