Hann gerir það ekki endasleppt í stórlaxaveiðinni hann Arnór Ísfjörð Guðmundsson. Hann veiddi 102 sentímetra hæng í Kristnapolli í Laxá í Dölum fyrir fjórum dögum. Hann skrapp aðeins í Grímsá í tvo daga og mætti svo aftur í Dalina í dag. Í fyrsta kasti í hvítfyssið í Þegjanda setti hann í fisk.
„Ég sá strax að þetta var hrygna. Ég taldi hana áttatíu sentímetra plús þegar hún stökk. En það var ekki fyrr en ég komst í návígi við hana í einni Malarvíkinni að ég sá að þetta var risi,“ sagði Arnór í samtali við Sporðaköst, enn móður eftir að hafa landað þessari risahrygnu.
„Ég á bara ekki til orð. Úfffff,“ sagði hann bæði við sjálfan sig og fréttamann. Svo endurtók hann þetta.
Arnór var einn við veiðar en er búinn að fá tilsögn í myndatöku og gat því stillt símann á sjálfvirka myndatöku.
„Hún mældist 101 sentímetri en var ekkert rosalega þykk. Mín kenning er að hún hafi farið út í sumar og verið að mæta aftur í ána. Hún var mjög björt og falleg.“
Það er fyllsta ástæða til að óska Arnóri Ísfjörð til hamingju með þessa veiðiviku þar sem veiðigyðjan hefur heldur betur sýnt honum velþóknun.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |