„Þetta var mjög skemmtilegt. Ég er svo glaður að þetta skyldi vera fiskur úr Fnjóská og svona stór. Hann fer í klak og mun hjálpa ánni í framtíðinni,“ sagði Gunnar Jónsson á Akureyri um 100 sentímetra laxinn sem hann landaði í Fnjóská í vikunni.
Gunnar var einn þegar hann setti í laxinn. „Hann vildi koma í klak. Hann bara kom rólega að Francesnum og tók hana og lagðist svo bara. Ég var með fast átak honum allan tímann en hann hreyfðist ekki. Ég var að reyna að hringja í félaga mína að koma með háf og plastslöngu svo við gætum farið með hann í klakkistu.“ Gunnar segir að hann hafi ekki náð í þá fyrr en eftir fimmtán mínútur og þá voru þeir fljótir á staðinn. Viðureignin tók um hálftíma og þessi stórlax er nú í kistu og býður þess að verða kreistur í haust.
Gunnar hefur áður fengið stærri lax í Fnjóská. það var í Ferjupolli og mældist hann 102 sentímetrar. Þessi í vikunni mældist sléttir hundrað sentímetrar og tók rauða Frances tommu.
„Ég fer bara eftir kvarðanum. Hundrað sentímetrar eru tíu kíló eða tuttugu pund. Sá úr Ferjupolli var samkvæmt því 22 pund,“ segir Gunnar um áætlaða þyngd þessara stórlaxa. Hann hefur reyndar fengið einn enn og var það í Laxá í Aðaldal.
Hundraðkallinn hans Gunnars veiddist á Merkurbreiðu á svæði 4. Laxinn var leginn og því líklega gengið í ána snemma í júní. Ríflega hundrað laxar eru komnir úr Fnjóská í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |