Stærsti lax sem vitað er um í sumar veiddist í Jöklu fyrir austan. Það var 107 sentímetra hrygna sem veiddist í veiðistað sem heitir því áhugaverða nafni Sjálfhelda. Borgar Antonsson, eða Boggi Tona fór nýlega á þennan veiðistað og setti undir rauðan Elliða, hálf tommu túpu.
Eftir nokkur köst tók fiskur og Boggi Tona vissi strax að þetta var stórlax. Eftir mikið reiptog og hörku viðureign landað hann hrygnu sem mældist 100,5 sentímetrar. Boggi tók fast á henni og honum telst til að viðureignin hafi ekki verið meira en sex til sjö mínútur. Hrygnunni var sleppt.
Veiðin í Jöklu í sumar hefur verið með ágætum og síðasta vika skilaði hundrað löxum. Allt útlit er fyrir að Jökla slái met þetta sumarið. Hún er þegar komin í 559 laxa og mestur afli sem hefur verið skráður á einu sumri er 815 laxar árið 2015.
Með Bogga Tona í hollinu þegar hann landaði hrygnunni var foringinn Sigurður Staples, eða Súddi. Hann setti í og landaði glæsilegum hæng sem mældist 97 sentímetrar. Veiðistaðurinn var Hólaflúð sem er einn gjöfulasti staðurinn í Jöklu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |