Margir íslenskir veiðimenn eiga sér þann draum að prófa veiði erlendis. Margir hafa látið þennan draum rætast, en aðrir gæla enn við hugsunina. Stórlaxahvíslarinn Nils Folmer Jörgensen er við veiðar í einni af laxveiðiperlum Noregs. Það er áin Lakselva og á svæðið er kennt við Olderö. Sporðaköst slógu á þráðinn til Noregs og forvitnuðust um hvernig veiðin gengi þar.
„Ég er svo feginn að vera loksins kominn. Í tvígang hef ég lent í frestun. Bæði vegna flóða og einnig vegna Covid-19. En loksins gekk þetta upp. Þegar við hófum veiðar voru skilyrði afar góð. Nýlega hafði rignt og áin vaxið hressilega í vatni. Framundan var svo þurrkatíð,“ sagði Nils í símtali við Sporðaköst.
Svona skilyrði eru ávísun á veiði og strax fyrsta kvöldið landaði hann tveimur löxum. Annar vigtaði þrjátíu pund og var lúsugur. Fjörið hélt áfram og morguninn eftir landaði hann tveimur löxum og sá stærri var 25 pund.
„Eftir þriggja daga veiði var ég búinn að landa sex löxum og það var vonum framar því Noregur er ekki þekktur fyrir magnveiði, miklu frekar eru það þeir stóru sem daga veiðimenn hingað. Og veiðifélagi minn Dan fékk svo sannarlega að handleika eitt slíkt eintak, en hann landaði fjörutíu punda laxi.“
Nils hefur verið að taka þessa fiska á Sunray afbrigði og fluguna Metallicu sem hann hannaði.
Olderö eru einkasvæði í ánni Lakselva. Hún er ekki langt frá hinni nafntoguðu Alta og einnig þekkt fyrir stóra laxa. Það sem Nils finnst sérstaklega ánægjulegt við Olderö svæðið er að fyrirkomulag veiðanna er svipað og á Íslandi. Tvær veiðivaktir á dag og fullt fæði í veiðihúsinu. Þar sem Lakselva er mun minni á en Alta segir Nils þægilegt að veiða hana með tólf til þrettán feta stöngum. Á svæðinu eru einungis sex stangir og því rúmt um veiðimenn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |