Ríkisstjórnin fær það óþvegið frá Rabba

Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í Miðfirði með fallegan tveggja ára. …
Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í Miðfirði með fallegan tveggja ára. Hann gagnrýnir ríkisstjórnina harkalega í pistli á facebook. Ljósmynd/Aðsend

Rafn Valur Alfreðsson leigutaki Miðfjarðarár sendi frá yfirlýsingu á facebook nú skömmu fyrir hádegi. Hann gagnrýnir harkalega þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að herða reglur fyrir erlenda ferðamenn sem koma til landsins. Rafn er vægast sagt ósáttur og segir þessa ákvörðun óskiljanlega. „Í raun líður mér eins og ég hafi alveg verið að klára maraþonhlaup og svo hafi einhver vitleysingur komið og sparkað mig niður 500 metra frá endamarki,“ skrifar Rafn sem oftast er kallaður Rabbi.

Hann segir ótta lélegra stjórnmálamanna við að gera mistök farin að verða dýr. Hann nefnir að í hans litla fyrirtæki sé fyrirsjáanlegt tekjutap upp á tuttugu milljónir króna. Ríflega fimmtíu stangir hafi verið afbókaðar af erlendum veiðimönnum eftir að tilkynnt var um hertar reglur á landamærunum. Hann bendir á að þetta hafi líka í för með sér tekjumissi fyrir leiðsögumenn, matreiðslumenn, starfsfólk í veiðihúsinu og þá eru ekki taldar afleiddar tekjur fyrir bílstjóra, hótel, Icelandair og fleiri og fleiri.

Rabbi klikkir út með þessum orðum. „Þessi ríkisstjórn er galin og ákvörðunin er tekin af fólki sem fær útborgað hvort sem hingað koma ferðamenn eða ekki, hvort sem veiðist loðna eða ekki, sama hvað gerist þá borgum við launin þeirra. Þetta lið er líka með ein bestu lífeyrisréttindi sem þekkist í þessari veröld og við borgum.“

Hann merki færsluna með myllumerkinu við getum ekki öll verið ríkisstarfsmenn og myllumerkinu við getum ekki öll verið á bótum.

Ýmsir hafa tekið undir færsluna hjá Rabba, þar á meðal nokkrir leiðsögumenn og Jón Þór Júlíusson sem einnig rekur fyrirtæki sem flytur inn erlenda veiðimenn. Hann segist taka undir hvert orð í færslunni.

Hér að neðan má lesa færsluna í heild sinni.

„Ótrúlega vond tilfinning að þurfa að afbóka 52 stangir af erlendum veiðimönnum það sem eftir lifir tímabils í Miðfjarðará útaf óskiljanlegri ákvörðun misvitrar ríkisstjórnar. Í raun líður mér eins og ég hafi alveg verið að klára maraþonhlaup og svo hafi einhver vitleysingur komið og sparkað mig niður 500 metra frá endamarki..

í allt sumar höfum við verið með fullt hús af fólki, aðallega erlendum veiðimönnum sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að veiða í Miðfjarðará á hverju sumri. Flestir þeirra eru búnir að fara í PCR próf í heimalandi sínu áður en þeir koma hingað til að fara í annað PCR próf og ættu því að vera eins öruggir ferðamenn og hægt er að fá.
Ótti lélegra stjórnmálamanna við að gera mistök er að fara að verða okkur dýr. Bara í mínu litla fyrirtæki erum við að tala um amk 20 milljóna tekjutap. Tekjumissir fyrir leiðsögumenn, matreiðslumenn og starfsfólk í veiðihúsi. Þá er ótalið aðrar afleiddar tekjur td, bílstjóra, hótel, Icelandair og veitingastaðir.
Ef það væru 5 - 10 manns á sjúkrahúsi og annað eins á gjörgæslu, 20 - 40 smit á dag og við hefðum það á tilfinningunni að við værum að missa tökin myndi ég skilja þessa ákvörðun.
Það eru 28 ný tilfelli alla síðustu viku.
Það er 1 manneskja á sjúkrahúsi
Það er enginn á gjörgæslu
Þessi ríkisstjórn er galin og ákvörðinin er tekin af fólki sem fær útborgað hvort sem hingað koma ferðamenn eða ekki, hvort sem það veiðist loðna eða ekki, sama hvað gerist þá borgum við launin þeirra. Þetta lið er líka með ein bestu lífeyrisréttindi sem þekkist í þessari veröld og við borgum.“
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert