„Já, við höfum gert athugasemdir við nær alla kaflanna í nýju veiðilöggjöfinni og teljum hana vera komna of snemma inn í samráðsgátt. Til dæmis getum við bent á kaflann um hvítabirni. SKOTVÍS vísar í nefndarálit um hvítabirni sem var unnið eftir landtöku hvítabjarna á árunum 2008-2010. Að mati félagsins og starfshópsins skal fella alla hvítabirni sem berast til landsins því á einhverjum tímapunkti muni fólki stafa hætta af. Óþarfi er að bíða eftir fyrsta alvarlega slysinu eða dauðaslysinu til að setja slíka verklagsreglu. Ástæðurnar eru einfaldar.
1) Hvítabirnir eru stórvirk drápstæki fullkomnuð af náttúrunni, þau líta ekki á manninn sem vin heldur auðvelda bráð.
Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði árið 2008.
mbl.is
2) Til að fanga hvítabjörn svo vel takist til út frá dýraverndarsjónarmiðum þarf sérþjálfað teymi sem bjargar nokkrum slíkum á ári ásamt því að stunda æfingar. Til dæmis þarf sérþjálfað auga til að meta stærð og þyngd ísbjarnar en það er lykilatriði svo magn svefnlyfs sem skotið er í hann sé nægilegt til að svæfa hann en ekki drepa. Slíkt teymi er ekki staðar á Íslandi.
3) Takist svo ótrúlega vel til að ísbjörninn er fangaður lifandi þá blasir við nýtt vandamál. Enginn vill taka við honum. Dýragarðar vilja ekki slík dýr og ekki má flytja hann neitt vegna sjúkdómavarna svo sem hundaæðis. Eftir svæfingu má aðeins flytja hann í klukkustund áður en hann er vakinn aftur sem takmarkar verulega hversu langt er hægt að flytja hann.
4) Sé fullorðinn fangaður ísbjörn settur í dýragarð mun honum líða illa á hverjum degi uppfrá því. Slíkt væri dýraníð.
5) Hvítabirnir eru það sjaldséðir flækingar til Íslands að heildarviðkoma stofnsins er ekki háð því að „bjarga“ þeim þegar þeir koma til landsins. Hugsunin er falleg en á best heima í draumheimum, lagasetning á að endurspegla raunhæfa kosti en ekki draumsýnir. Hvítabirnir eru um 30.000 talsins, glæsileg dýr sem okkur ber að vernda með því að lágmarka loftslagsbreytingar,“ sagði Áki Ármann Jónsson í samtali við Sporðaköst.
Hann nefnir fleiri atriði.
Rjúpnaskytta á veiðislóð.
mbl.is/Ingólfur Guðmundsson
„„Séu tilteknar tegundir dýra eða fugla skilgreindar á válista í nokkurri hættu, í hættu, eða í bráðri hættu, skal eins og unnt er veita slíkum tegundum og búsvæðum þeirra viðeigandi vernd við framkvæmd laga þessara. " Hér er verið að leggja til beintengingu Válista við lagasetningu. Það er áhugavert þar sem á ráðstefnu um Válista sem haldin var í Reykjavík árið 2017 tók yfirmaður IUCN Red List Unit (Craig Hilton-Taylor) það sérstaklega fram að ALLS EKKI mætti beintengja listana við lagasetningu. Þeir væru byggðir á bestu fáanlegri þekkingu, áhugamanna sem sérfræðinga, og væru alls ekki fullkomnir. Hinsvegar væru þeir nothæfir til að flagga viðvörunarflöggum sem ætti þá að skoða sérstaklega í hverju tilviki. Tegundir geta lent á slíkum listum af margvíslegum orsökum en sjálfbærar veiðar eru nær aldrei orsök. Reyndar er íslenska orðið VÁLISTI sérstaklega sterkt orð þegar það er notað yfir allar tegundir sem fara á listana burtséð frá alvarleika. VÁLISTI ætti að innihalda tegundir sem eru sérstaklega viðkvæmar eins og haförn, þórshana og fleiri slíkar tegundir. Aðrar tegundir eins og lundi ættu frekar heima á ATHUGUNARLISTA með skýringum. Í ljósi orða þeirra sem halda utan um listana erlendis sem tóku líka sérstaklega fram að listarnir taka ekki tillit til staðbundinna aðstæðna. Að takmarka eða banna sjálfbærar veiðar á tegundum sem eru á slíkum listum vegna til dæmis röskunar búsvæða er ekkert annað en grænþvottur og friðþæging. Þá er ekki verið að laga rætur vandans sem liggja annars staðar. Kannski er það einmitt grunnvandamál umhverfismála í dag. Friðþæging til skamms tíma er ódýrari en að leysa stóru vandamálin til framtíðar. SKOTVÍS leggst því alfarið gegn því að þessir listar séu beintengdir við lagasetningu.
SKOTVÍS vill einnig að veiðinámskeiðin verði færð til félagsins þannig að veiðimenn mennti veiðimenn líkt og reglan er á Norðurlöndum. Einnig viljum við skilgreina betur verksvið stofnana t.d. hvað varðar veiðistjórnun. Þá þarf einnig að einfalda lagabálkana en ekki að vera að flækja saman lögum um almenna velferð gæludýra og bústofns saman við villt dýr sem lifa við grimma og villta náttúru. Siðareglur SKOTVÍS sem eru orðnar yfir fjörutíu ára gamlar taka vel á þeim málum og er nú þegar góður kafli í núverandi lögum sem endurspeglar þær. Ramminn um velferð villtra dýra á best heima í veiðilöggjöfinni og hvergi annars staðar.“