Það hefur verið önnur og mun betri staða í Hofsá en undanfarin ár. Það er meira af fiski og smálaxinn er að skila sér í meira mæli en á síðustu árum, enda veiðist mjög vel,“ segir Jón Magnús Sigurðarson bóndi á Einarsstöðum og formaður Veiðifélags Hofsár.
Hann er jafnframt leiðsögumaður við ána og fylgist því grannt með veiðinni og veiðimönnunum sem hafa verið heldur betur lukkulegir á bökkum Hofsár í sumar. Enda hefur meðalveiði tveggja síðustu vikna verið um tveir og hálfur lax á stöng á dag sem er með því allra besta í laxveiðiám með náttúrulegum stofnum þetta sumarið.
„Við finnum vel að Hofsá er að detta í sitt gamla góða far,“ bætir Jón Magnús við. „Smálaxinn hefur vantað síðustu ár en nú er hann mættur og bætist við öflugan stórlaxastofninn sem lætur sig ekki vanta.“
Blaðamaður var við Hofsá í liðinni viku og getur, eftir að hafa kynnst þessari perlu í Vopnafirði vel á síðustu árum, staðfest þessi orð formanns veiðifélagsins. Það er mikið af fiski í ánni, öll svæði virk og þegar við tökuglaðan smálax bætast vonir um þá stóru, sem gefa sig líka af og til, þá eru veiðimenn ánægðir.
Ef horft er til veiðitalna síðustu tveggja vikna úr ám með náttúrulegan laxastofn, sem gefnar eru upp á vef Landssambands veiðifélaga, angling.is, má sjá að meðalveiði á stöng hefur verið best í systurá Hofsár í Vopnafirði, Selá, eða nær sex laxar á dag. Í Haffjarðará, sem gefur besta veiði á Vesturlandi, veiddust að meðaltali 4,3 laxar á stöng þessar vikur, um fimm á stöng í Laxá á Ásum, 2,6 í Miðfjarðará, 3,1 í Laxá í Kjós og nær tveir í Langá á Mýrum. Eins og fyrr segir hafa veiðst um 2,5 laxar á stöng í Hofsá að meðaltali síðustu tvær vikur.
Jón Magnús endurtekur að veiðimenn við Hofsá finni vel fyrir því að mun meira sé af fiski í ánni en undanfarin ár, en árin 2013 og 2014 urðu gríðarmikil flóð í henni sem eyðilögðu marga veiðistaði og talið er að hafi haft slæm áhrif á seiðabúskapinn. En nú virðist náttúran að vera að jafna sig á því, og hyljir sem skemmdust að koma aftur inn og aðrir nýir veiðistaðir að myndast.
„Meðalveiði síðustu þriggja áratuga í Hofsá er um þúsund laxar og við verðum eflaust nálægt því. Þegar ég kom hingað fyrst, 2006, þá var hún í tvö þúsund löxum. Það er alveg hægt,“ segir hann og hlær vongóður.
„Neðri veiðisvæðin breyttust talsvert við flóðin en farvegurinn breytist þar fyrir utan alltaf eitthvað á hverju ári,“ segir Jón Magnús. „Áin er að jafna sig og svo fer seiðabúskapurinn líka alltaf eftir tíðarfarinu og hvernig vorar og þar með hvernig vöxtur seiðanna er. Frá 2016 hefur alltaf vorað vel og seiðin hafa stækkað og eru nú að ganga til hafs þriggja ára í stað fjögurra áður. Í fyrra gekk stór árgangur til hafs og er að skila sér núna sem smálax og sá árgangur sem fer út núna í sumar er líka vel yfir meðaltali. Við vonum að hann skili sér vel á næsta ári. Það gæti því orðið enn betra en núna. Þetta er spennandi!“
Hann bætir við að þótt ánægjulegt sé að sjá smálaxa skila sér í öflugum göngum þá sé hlutfall stórlaxa eftir sem áður mjög hátt í ánni og þessir klassísku stóru Hofsárlaxar, þykkir og sterkir, heilli veiðimenn.
Jón Magnús segir að lokum að það hafi verið minna um erlenda veiðimenn við Hofsá nú en síðustu sumur, vegna kórónuveirunnar, en íslenskir veiðimenn hafi komið inn í staðinn og hafi Hofsá verið uppseld.
Rangárnar tróna eins og áður hæstar á listanum yfir aflahæstu veiðisvæðin. Og sýnu meira hefur veiðst í þeirri eystri, veiðin þar var komin yfir 5.300 laxa á miðvikudaginn var og meðalveiði á hverja stöng af þeim 18 sem veitt er á nær sex laxar á dag. Má vel kalla það mok.
Í Affallið í landeyjum, þá nettu á á Njáluslóð eru sett sömu hafbeitarseiði og í Eystri-Rangá. Þar er veitt á fjórar dagsstangir og meðalveiðin síðustu vikuna sex laxar á dag og veiðimenn kampakátir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |