Sami takturinn í vikutölunum

Ólafur Garðarsson háfar með tilþrifum lax hjá Leifi Kolbeinssyni í …
Ólafur Garðarsson háfar með tilþrifum lax hjá Leifi Kolbeinssyni í Selá. Fallegur smálax sem fékk frelsi eins og allir í Selá. Veiðin þar hefur verið mjög góð í sumar. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Það er fátt sem kemur á óvart í nýjum vikutölum sem birtust í morgun á vef Landssambands veiðifélaga, angling.is. Staðfest er hin mikla veiði í Eystri-Rangá en hún hefur nú gefið rétt tæplega 6.800 laxa. Ljóst er að það stefnir í metveiði í Eystri en fyrra met hljóðaði upp á 7.473 laxa. 

Það er hins vegar ólíklegt að Eystri-Rangá slái út Íslandsmetið sem systuráin Ytri-Rangá á, frá árinu 2008. Þá skilaði Ytri 14.315 löxum. Sennilega verður það met seint slegið.

Vikuveiðin í Eystri-Rangá var upp á 1.470 laxa sem er ótrúleg veiði. Ytri-Rangá skilaði vikuveiði upp á 120 laxa og er að nálgast tvö þúsund laxa í heildina. Hún er í öðru sæti á listanum.

Nýrunninn lax úr Ytri Rangá. Það styttist í að áin …
Nýrunninn lax úr Ytri Rangá. Það styttist í að áin fari í tvö þúsund laxa. Ljósmynd/Aðsend

Miðfjarðará heldur þriðja sætinu og er komin í 1.283 laxa. Vikuveiðin var áttatíu laxar.

Affallið í Landeyjum er í fjórða sæti með 1.060 þrátt fyrir að hafa ekki skilað inn tölum fyrir síðustu viku.

Selá í Vopnafirði er nýjasta áin til að komast í fjögurra stafa tölu og eru þar bókaðir 1.022. Vikuveiðin í Selá var 150 laxar.

Rólegheit eru í Urriðafossi í Þjórsá en þrátt fyrir aðeins níu laxa viku heldur Urriðafoss sjötta sætinu. Ágæt veiði hefur verið á öðrum svæðum í Þjórsá en sú veiði telst ekki með Urriðafossi.

Haffjarðará er komin í 918 laxa og var vikuveiðin um sextíu laxar. Það hefur verið mikið fjör í Haffjarðaránni í sumar og þar er mikið af fiski.

Hofsá í Vopnafirði átti góða viku og veiðimenn þar lönduðu áttatíu löxum í síðustu viku. Hún er í áttunda sæti. Fara þarf aftur til ársins 2013 til að finna jafn góða veiði í Hofsá, sem virðist á góðri leið með að ná fyrri styrk sínum.

Norðurá er í níunda sæti eftir fjörutíu laxa viku. Samtals hefur hún skilað 829 löxum. Hefð er fyrir því að Norðurá sé mun ofar á þessum lista.

Tíunda sæti listans skipa svo Þverá/Kjarrá. Þar veiddust tæplega sextíu laxar í síðustu viku og er heildartalan þar 826 laxar. Þverá/Kjarrá gæti enn farið yfir þúsund laxa þar sem haustveiðin þar getur verið mjög góð.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert