Klukkan er fimm mínútur í níu. Staðurinn er Hnausastrengur í Vatnsdalsá. Morgunvaktin hafði núllað og kvöldvaktin hafði ekki fengið högg. Hann var þó að sýna sig á hefðbundnum stöðum. Fjölmörgum flugum var kastað og öllum brögðum beitt en ekkert gekk. Öll stóru nöfnin í fluguboxunum voru rennblaut en allt án árangurs.
Hnausastrengur er stór veiðistaður og ber vel tvær samrýndar stangir í mesta bróðerni. Klukkan er fimm í níu, og uppgjöf í loftinu þegar veiðimaður á bakkanum segir: „Þetta er ekki búið. Ég ætla að kasta flugu sem aldrei hefur verið kastað í þessa á.“ Það er Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu sem neitar að gefast upp. Flugan sem hann fékk í höfuðið var flugan Leifur eftir Einar Pál (Palla í Veiðihúsinu). Flugan sem við kynntum einmitt fyrir veiðimönnum hér á síðunni í morgun.
Fallega græn fluga, ólík öllum öðrum, ekta síðsumars/haustfluga. Fjórar í níu og flugan var komin undir. Það sást undir iljar veiðimannsins þar sem hann hljóp upp fyrir heitasta tökustaðinn í Hnausa. Eitt kast og ekkert gerðist. Annað kast og allt í keng. 82 sentímetra hrygna tók Leif eftir að hafa séð allar heimsins flugur. Veiðimanninum var svo brugðið að hann rak sig í stein og datt kylliflatur aftur á bak en svo ákveðinn var hann að halda fiskinum að ósjálfráð viðbrögðin héldu stönginni beint upp í loft svo hvergi kom slaki á svo þessi fallega hrygna náðist örugglega í land. Lærdómur þessarar sögu er einfaldur. Þetta er ekki búið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |