Hvað klikkaði í laxveiðinni í sumar?

Glímt við lax í Efri-Johnsson í Kjarrá sumarið 2018.
Glímt við lax í Efri-Johnsson í Kjarrá sumarið 2018. ÞGÞ

Þetta er stór og gildishlaðin spurning. En það er ástæða til að spyrja hennar. Fiskifræðingar höfðu gefið fyrirheit um góðar smálaxagöngur og var þá sérstaklega horft til Vesturlands. Til að flækja málið enn meira, áður en leitast er við að svara spurningunni, þarf að hafa í huga að veiðin var afar misjöfn milli vatnasvæða. 

Norðurá og Þverá/Kjarrá stóðu engan veginn undir þeim væntingum sem settar höfðu verið fram. Á móti kemur að til dæmis Haffjarðará gerði það og gott betur. Þarna er ekki langt á milli ósa og því varhugavert að kenna ástandi sjávar um. Það kemur reyndar fram í minnisblaði sem fiskifræðingarnir Sigurður Már Jónsson og Jóhannes Guðbrandsson hafa tekið saman fyrir Vesturland. Rétt er að taka fram að það minnisblað tekur einvörðungu til þess landssvæðis.

Ef horft er til Suðurlands og þeirra miklu laxagengdar sem sést hefur í Eystri-Rangá er ljóst að hafið var ekki að valda búsifjum.

Slakar göngur í Borgarfirðinum

„Góðar væntingar voru um að laxagöngur og laxveiði yrðu góðar á Vesturlandi sumarið 2020 eftir að smálaxagöngur brugðust sumarið 2019. Búið var að spá fyrir slöku ári 2019, sem byggðist á því klakárgangur frá 2015 hefur alla tíð mælst mjög slakur eftir mjög slakt gönguár 2014 sem leiddi til þess að hrygning það ár var langt undir burðargetu ánna og sjávarhiti var einnig lágur. Göngur hverju sinni eru háðar þessum tveimur meginþáttum, þ.e. framleiðslu ánna á gönguseiðum og afdrifum þeirra á beitarsvæðum laxins í sjó.

Nú þegar meginhluti laxagöngunnar hefur skilað sér í árnar í byrjun ágúst hefur komið vel í ljós að smálaxinn er vænn og feitur sem bendir til þess að sjávarumhverfið hafi verið hagstætt. Þá hafa göngur víða verið góðar í ár sem byggja á hafbeitarsleppingum sem bendir til góðra endurheimtna úr sjó. Niðurstöður úr merkingum gönguseiða bæði náttúrulegra og hafbeitarseiða liggja ekki fyrir fyrr en veiðitímabilinu 2020 lýkur og verður unnt að greina þennan þátt nánar. Almennt hafa laxagöngur í ár á Vesturlandi verið langt undir væntingum, en einkum eru áberandi slakar göngur í Borgarfjarðarárnar meðan göngur í ár á Mýrum og Snæfellsnesi hafa víða verið ágætar,“ skrifa þeir fiskifræðingar í minnisblaðinu.

Þeir velta einnig fyrir sér öfgum í veðurfari síðustu ár sem enginn hefur farið varhluta af. Þannig benda þeir á að þurrkar í Borgarfirði í fyrra hafi verið með mesta móti.

Þannig voru gríðarlegir þurrkar á Vesturlandi sumarið 2019 og einkum voru þeir tilfinnanlegir í Borgarfirði. Ekkert er vitað um áhrif slíkra þurrka á seiðaútgönguna 2019, en hugsanlega gætu afföll hafa aukist á gönguseiðum. Gögnum um slíkt verður þó ekki safnað eftir á. Kanna þarf nánar áhrif loftslagsbreytinga á laxastofnana okkar m.a. hvað varðar göngutíma seiða til sjávar og áhrif á endurheimtur. Brýnt er að hefja vinnu við gerð lífsferilslíkana hjá laxastofnum þar sem tekið er tillit til hrygningar, mælinga á þéttleika og vaxtar seiða, mælinga á hitafari ferskvatns sem og umhverfisþáttum og frumframleiðni í sjó,“ segir í minnisblaðinu.

Margir tala um tökuleysi

Ef horft er til annarra landshluta má sjá að Húnavatnssýslurnar áttu erfitt uppdráttar í sumar. Þó svo að tímabilinu sé ekki lokið og þekkt er að ár eiga oft góða endaspretti, er heildarmyndin komin í ljós.

Eitt er það sem veiðimenn um allt land hafa upplifað og það er tökuleysi í laxinum. Hverju sem það er um að kenna. Væri gaman að heyra kenningar um slíkt ástand.

Vatnsdalsá, Víðidalsá, Laxá á Ásum og Blanda áttu allar erfitt uppdráttar og vantaði hreinlega fisk í þessar ár. Þó má segja að Víðidalsá geymi mun meira af fiski en í fyrra sem var hörmungarár. Þar bregður við tökuleysi. Kannski eiga þessar ár eitthvað inni í haustrigningum og meiri veðrabreytingum. Eina áin sem vann varnarsigur í þessu ástandi, norðan Hrútafjarðar er Miðfjarðará. Ef hörmungarsumar þýðir um 1.600 laxar þá má lifa við það.

Köflótt fyrir norðan

Norðurlandið sjálft með Laxá í Aðaldal í broddi fylkingar hefur ekki verið upp á marga fiska. Hrun er stórt orð, en því miður er hægt að nota það um veiðina í Aðaldalnum þegar kemur að laxinum. En fleiri erfið mál steðja að Norðurlandi. Þannig hefur bleikjan ekki verið að skila sér í bleikjuárnar í Eyjafirði, í því magni sem vonast var eftir.

Norðausturhornið hefur verið í lagi, alla vega að hluta. Þannig hefur Vopnafjörður gefið góða veiði og bæði Hofsá og Selá eru að endurheimta vopn sín. Þyngra hefur verið í Þistilfirði þar sem bæði Sandá og Svalbarðsá hafa séð betri tíma. Aftur á móti hefur Hafralónsá verið betri.

Austurlandið er svo sem ekki stórt þegar kemur að laxveiði. Þar er þó Jökla sem hefur notið vaxandi vinsælda og er hún nálægt því að slá sitt met. Hún er reyndar komin á yfirfall eins og greint hefur verið frá hér.

Suðurlandið hefur verið einna sterkast og þar rís hæst Eystri-Rangá með hreint út sagt ótrúlega veiði. Ytri-Rangá er ekki að standa undir væntingum en Þjórsá byrjaði vel og allar líkur á að hliðarár hennar muni koma vel út í haustveiðinni.

En á landsvísu er útlit fyrir lélegt laxveiðisumar á Íslandi. Það sem gerir þetta erfitt upp á framhaldið er að nú fer í hönd sölutími til erlendra veiðimanna og enn eitt árið á þessum áratug sem ekki stendur undir væntingum. Ísland hefur haft á sér það orð að vera öruggt. Það getur orðið erfitt að sannfæra menn um það fyrir sumarið 2021. Kannski er einfaldlega kominn sá tími að það þurfi að hugsa þetta upp á nýtt og verðleggja vöruna í samræmi við gæði. Ljóst er að sú vara sem margir veiðileyfasalar voru að selja í sumar bauð ekki upp á þau gæði sem verðið gaf til kynna.

Kjarrá var ekki svipur hjá sjón sumarið 2019. Hér má …
Kjarrá var ekki svipur hjá sjón sumarið 2019. Hér má sjá þurra bakka og áin var einungis brot af sjálfri sér. Þetta gæti verið stóri áhrifavaldurinn í ár og skýring á döpru gengi í Kjarrá. Sigurjón Ragnar
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert