Það var sameiginleg ákvörðun leigutaka og landeigenda í Miðfirði að fækka stöngum nú síðustu vikur veiðitímans. Eftir að reglur um skimun og sóttkví ferðamanna voru hertar afbókuðu sig margir erlendir veiðimenn. Í ljósi þessa var ákveðið að veiða Miðfjarðarána með sex til átta stöngum það sem lifir veiðitímans. Veitt er til 25. september og að öllu jöfnu væru tíu stangir við veiðar.
Á hádegi í dag lauk þriggja daga holl veiði, þar sem veitt var á átta stangir. Hollið gerði hörkuveiði og landaði 78 löxum. Miðað við stöðuna víða á landinu er það hreint út sagt frábær veiði.
Rafn Valur Alfreðsson leigutaki var spurður hvort þetta hefði eitthvað að gera með fækkun stanga. Hann taldi svo ekki vera. „Það rigndi loksins hjá okkur og við vissum að við áttum svolítið inni þegar yrði veðurbreyting. Það er ágætt magn af fiski á vatnasvæðinu. Einna helst er hægt að merkja að minna sé af fiski í Vesturánni,“ sagði Rafn í samtali við Sporðaköst.
Það er svo greinilegt hvað veðurbreytingin hefur gert því vikuveiðin í Miðfirðinum vikuna 19. til 26. ágúst var 81 lax. Hvort framhald verður á þessu kemur í ljós en víst er að menn voru kátir í Miðfirði og höfðu ástæðu til.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |