Þrír 98 cm úr Svartá – allir úr sama hyl

Steini með þann stóra. Þriðji 98 sentímetra laxinn sem veiðist …
Steini með þann stóra. Þriðji 98 sentímetra laxinn sem veiðist í Brúnarhyl í Svartá í sumar. Ljósmynd/Bjarni Karl Guðlaugsson

„Þetta var stórkostlegt frá upphafi til enda. Hann tók um leið og flugan lenti í vatninu eina mínútu í níu í síðasta kasti í síðasta rennsli. Þetta var sjöunda og síðasta flugan. Svört Frances-hálftomma,“ sagði Steini kokkur í samtali við Sporðaköst um 98 sentímetra hænginn sem hann landaði í gærkvöldi þegar klukkan var langt gengin tíu. Steini eða Þorsteinn Sæþór Guðmundsson var að endurnýja kynni við Svartá eftir nokkurt hlé. Honum finnst áin líta vel út og nýjar veiðireglur í Blöndu, sem Svartá fellur í, gerðu það að verkum að þeir félagar ákváðu að snúa aftur, eftir nokkurt hlé.

„Það var ekki rosalega dimmt þegar ég setti í hann. Það var farið að rökkva en ég var með hann í hátt í fjörutíu mínútur. Þetta var reiptog og hann stökk bara einu sinni. Ég togaðist á við hann og náði honum nær og svo vann hann út línu og fór til baka. Þetta var langt reiptog,“ sagði Steini um viðureignina.

Þetta er þriðji laxinn sem mælist 98 sentímetrar í Svartá í sumar og eru þeir allir þrír bókaðir í Brúnarhyl. Hann er neðsti veiðistaðurinn á svæði 3, eða efsta veiðisvæðinu. Svartá er fremur hröð en Brúnarhylur er virkilega fallega og hæg flugubreiða. Eða eins og Steini lýsir henni; „geggjuð flugubreiða“.

Þeir félagar eru komnir með sjö laxa. Þeir núlluðu í gærmorgun, en kvöldvaktin í gærkvöldi gaf áttatíu sentímetra fisk og einmitt úr Brúnarhyl. Þar var að verki Marías Gestsson. Þetta var áttundi laxinn í hollinu og er Svartá þá komin í 144 laxa. Hún gaf aðeins 57 laxa í fyrra en er nú komin yfir lokatölur 2018 og 2017.

Marías Gestsson með áttatíu sentímetra hrygnu einnig úr Brúnarhyl, tekin …
Marías Gestsson með áttatíu sentímetra hrygnu einnig úr Brúnarhyl, tekin seint í gærkvöldi. Ljósmynd/Bjarni Karl Guðlaugsson

Ármót Blöndu og Svartá hafa verið fín og komu þar þrír laxar í þarsíðasta holli og tveir mjög vænir sjóbirtingar í gærkvöldi. „Þetta er miklu betra ár en í fyrra,“ segir Steini eftir að hafa skoðað veiðibókina.

Bjarni Karl Guðlaugsson áhugaljósmyndari var að koma af silungasvæðinu þegar Steini var að slást við stórlaxinn og hann myndaði viðureignina. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert