Sjóbirtingsveiðin er nú stigvaxandi enda besti tíminn að bresta á. Kristján Páll Rafnsson, einn af leigutökum Tungufljóts í Vestur-Skaftafellssýslu, setti í morgun í magnaðan birting í veiðistaðnum Syðri-Hólma.
„Þetta er bara fullkomið eintak af birtingi,“ sagði hann eftir að hafa landað 93 sentímetra sjóbirtingi. „Þessi var bara einhvern veginn svo fullkominn. Ummálið mældi ég ekki en náði engan veginn utan um stirtluna á honum. Það er mikið af 75 og upp í 85 sentímetra fiski á ferðinni en þegar þú lendir í þessari stærð er það bara allt annar leikur. Þeir eru svo sterkir og berjast af svo miklum krafti,“ sagði hróðugur Kristján í samtali við Sporðaköst.
Hann missti annan aðeins minni á sama stað eftir mikil læti.
Hollið er komið með 31 fisk. Eins og gefur að skilja er uppistaðan í aflanum sjóbirtingur en líka lax í bland. Samtals hafa veiðst um 270 birtingar í Tungufljóti í ár, með vorveiðinni. Stærsti fiskurinn til þessa mældist 100,5 sentímetrar en það var vorfiskur og var greint frá þeim metfiski hér á síðunni og birt myndband með viðureigninni.
Fiskurinn sem Kristján Páll veiddi er tuttugu pund plús, enda virkilega þykkur og ekki búinn að vera lengi í ánni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |