Stangaveiðifélag Reykjavíkur er að bæta við sig enn einu vatnasvæði. Ekki er langt síðan greint var frá því að SVFR hefði tekið Sandá í Þistilfirði á leigu frá og með næsta sumri. Nú bætist Flekkudalsá við í úrval fyrir félagsmenn og aðra. Fréttatilkynning frá SVFR um málið hljómar svona.
„Samstarfssamningur um vatnasvæði Flekkudalsár milli Veiðifélags Fellsstrandar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur var undirritaður í gær. Með samningnum hefur SVFR tryggt sér eina eftirsóknarverðustu sjálfsmennskuá á Vesturlandi.
„Flekkan er frábær laxveiðiá og fellur mjög vel að þörfum félagsmanna SVFR. Hún er allt í senn; frábær laxveiðiá, sérlega falleg og tilkomumikil og fjölskylduvæn. Samstarfssamningurinn tekur ennfremur mið af þeim aðstæðum sem nú eru uppi og er hagfelldur fyrir báða aðila eins og allir samningar eiga að vera,“ segir Jón Þór Ólason, formaður SVFR. „Við leggjum áherslu á gott samstarf við landeigendur, enda teljum við ótvírætt að hagsmunir leigusala og leigutaka fari saman.“
Flekkudalsá er þriggja stanga 20 km löng dragá sem á efstu upptök sín á hálendinu í Klofningsfjallgarði, og fellur til sjávar í Hvammsfjörð vestan við bæinn Ytra-Fell á Fellsströnd eftir að hafa runnið frá upptökum sínum í gegnum stórbrotið umhverfi í skógi vöxnum Flekkudal. Er það mat margra að Flekkan sé ein fallegasta laxveiðiá á Íslandi. Nær vatnasvæðið yfir Flekkudalsá, Kjarlaksstaðaá og Tunguá.
„Flekkan á sér marga aðdáendur og við hlökkum til að gefa félagsmönnum SVFR kost á að veiða í henni. Fastagesti árinnar bjóðum við að sjálfsögðu velkomna í félagið,“ segir Jón Þór.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |