Stærsti lax sumarsins til þessa veiddist í kvöld. Þar var að verki Ingólfur Davíð Sigurðsson og vettvangurinn var Vaðhvammur í Vatnsdalsá. Ingólfur Davíð er þekktur stórlaxahvíslari og hefur landað 115 sentímetra laxi í Vatnsdalsá. Það var sumarið 2006.
„Ég var í Vaðhvammi og Þetta var eins og Dauðahafið.Ég hafði ákveðið að veiða bara þennan hyl. Var svo búinn að fara þrjár umferðir yfir hylinn og þá loksins fór hann að hreyfa sig og á endanum tók hann. Hann tók eins og smálax. Reyndi þrisvar og hitti í fjórðu tilraun í sama reki. Þetta var ótrúleg taka. Hann lagðist í sjö mínútur og svo byrjaði ballið. Hann tók svakalegar rokur og stökk. Ég var með silungaprik og flotlínu og átta punda taum. Samt tók þetta ekki nema tæpar fjörutíu mínútur.“
Ingólfur Davíð og félagar mældu þennan hæng og mælingin sagði 108 sentímetrar. Það gerir hann að stærsta laxi sem veiðst hefur á Íslandi í sumar. Fram til þessa hafa tveir 107 sentímetra laxar veiðst, í Nesi og í Jöklu. Þessi hængur slær þá út.
En hver er lykillinn að því að veiða stórlaxa Ingólfur?
„Hjá mér er það að veiða á flotlínu og litlar flugur. Bara leita að þeim stóra. Þetta eru ekki mikil vísindi. En muna að láta túpurnar eiga sig,“ sagði kátur veiðimaður í samtali við Sporðaköst skömmu eftir að hafa landað þessum flotta hæng.
Já heyrðu, hvað tók hann?
„Hann tók einkrækju, Black and Blue númer tíu.“
Þetta er annar hundraðkallinn sem veiðist í Vatnsdalnum á jafn mörgum dögum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |