Nú fer hver að verða síðastur að skila inn mynd í veiðimyndasamkeppni mbl.is, Veiðihornsins og Sporðakasta. Frestur til að skila inn myndum er til 1. október og eftir það mun dómnefnd skipuð valinkunnum veiðimönnum og ljósmyndurum skoða framlög sem hafa borist.
Hér eru nokkrar myndir sem sendar hafa verið til okkar. Netfangið er eggertskula@mbl.is
Fyrsta myndin er skemmtileg störukeppni hunds og ísaldarurriða. Það er Nils Folmer Jörgensen sem heldur á urriðanum sem virðist annað hvort hneykslaður eða blátt áfram argur. Hundurinn starir bara á móti og Nils fullvissaði Sporðaköst að þetta hefði allt farið vel. Urriðinn fór út í aftur og hundurinn á þurrt til eiganda síns. Þessa mynd tók Elfar Aðalsteinsson.
Næsta mynd er úr Miðfirði. Hér er Jón Ásgeir Einarsson búinn að setja í svakalegan fisk í Sandgilshyl í Vesturá í Miðfirði. Myndasmiður er Kristmann Kristmannsson. Eins og Jón Ásgeir sagði í samtali við Sporðköst. „Þessi göltur sleit eftir tæplega tuttugu mínútna slagsmál. Sennilega í kringum 100 sentímetrana,“ sagði Jón Ásgeir í samtali við Sporðaköst.
Hver kannast svo ekki við hamingjusama matreiðslumanninn, Jóhann Gunnar Arnarsson eða Butlerinn eins og hann er alltaf kallaður. Pétur Pétursson leiðsögumaður frá Húsavík tók þessa mynd og hér hampar Butlerinn 97 sentímetra fiski úr Klapparhyl í Hofsá. Hann landaði líka stærsta laxi til þessa úr Selá, 101 sentímetri.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |