Veiðisumarið „gríðarleg vonbrigði“

Árni Baldursson með leginn hæng úr Miðfjarðará. Heilt yfir telur …
Árni Baldursson með leginn hæng úr Miðfjarðará. Heilt yfir telur Árni að sumarið hafi verið gríðarleg vonbrigði og hann telur verð á veiðileyfum þurfa að endurskoðast. Ljósmynd/Aðsend

Við hefjum nú uppgjör á laxveiðisumrinu 2020 þó svo að því sé ekki lokið að fullu er heildarmyndin orðin ljós. Í þessu uppgjöri leitum við til margra veiðimanna og heyrum af þeirra reynslu og hvaða álit þeir hafa á sumrinu. Við báðum þá að gefa því einkunn og segja okkur frá því sem var gott og hvað voru vonbrigði. Einnig spurðum við hvort eitthvað þyrfti að breytast.

Árni Baldursson var fyrstur til svars. „Gríðarleg vonbrigði. Frábær veiðiskilyrði í allt sumar en allt of lítið af laxi. Verð á veiðileyfum þurfa að endurspegla gæði veiðanna. Það er ekki búið að vera að gerast síðustu ár, þannig að já, það þarf að endurskoða verð veiðileyfa.“

Höskuldur B. Erlingsson, lögga og leiðsögumaður gefur sumrinu einkunnina sjö. Hans svar hljóðaði svo. „Ég get ekki kvartað hvað mig varðar. Ég fékk laxa í þau skipti sem að ég veiddi sjálfur og ég held að það eigi við um flesta.

Hitt er annað mál að sumarið sem leið er verulegt áhyggjuefni. Það vantaði smálax í þetta veiðisumar 2020 sem átti að verða stóra smálaxasumarið. 2015 árgangurinn átti að vera á heimleið eftir ár í sjó og það vita það allir að það var gríðarlegt magn af laxi sem að hrygndi í árnar það ár.

Mér finnst stóra áhyggjuefnið vera að við eða þar tilbær yfirvöld virðast lítið eða ekkert geta sagt til um hvað gerist eftir að seiðin hafa yfirgefið árnar. Og mín staðfasta skoðun er sú að seiðin hafi haft úr litlu að moða í sjónum eftir að þangað var komið. Ég byggi það á nokkrum skýringum.

Hér við Húnaflóa var lítið um átu. Það var enginn hvalur sem eltir jú átuna, enginn makríll og engin loðna. Mér fannst smálaxinn sem kom ágætlega haldinn en mikið um smálax á bilinu 55 – 58 cm. Það vita það jú allir að normið er að árið eftir stórt smálaxaár kemur gott ár tveggja ára laxa. Koma þeir? Það verður næsta stóra spurningin. Einkunn mín fyrir sumarið er 7.0.“

Ingólfur Davíð sleppir 108 sentímetra laxinum sem hann landaði í …
Ingólfur Davíð sleppir 108 sentímetra laxinum sem hann landaði í Vatnsdalsá fyrr í mánuðinum. Hann veiddi árið 2006 115 sentímetra lax í Vatnsdalsá. Ljósmynd/Aðsend

 

Ingólfur Davíð Sigurðsson sem hefur veitt stærsta lax sumarsins gefur sömu einkunn. Sjö, fyrir veiðina. Annars er þetta hans svar. „

Sumarið 2020 byrjaði vægast sagt vel í Þistilfirði en gaf svo eftir. Smálaxinn var ekki eins sterkur og menn áttu von á. Vopnafjörður virðist samt hafa verið í stuði og mætti segja mér að veiði hefði verið mun meiri ef aðstæður hefðu verið betri veðurfarslega. Veiðisumarið einkenndist af skítaveðri.

Laxá í Aðaldal er mér hugleikin en þar er sorgleg staða og greinilegt að heimamenn verða að snúa bökum saman með samheldnu átaki og hugsa um ána, laxinn og sveitina sem heild ekki um sérhagsmuni. Held að menni viti hvað virkaði best þar á bæ til að hjálpa laxinum, og eru sennilega heimamenn mun fróðari um það en ég.

Verð á veiðileyfum hækkar enn og sennilega það eina jákvæða við covid voru tilboð hér og þar, þá á ég við fyrir hinn almenna veiðimann. Samband leigutaka og landeiganda mætti alveg skoða deilingu á áhættu í svona árferði.

Veiddi í Jöklu í sumar og er þar á ferðinni ein af fáum vonarstjörnum í laxveiði hérlendis. Ég var yfir mig hrifinn. Ég heimsótti Húseyjarkvísl í fyrsta sinn síðan 2006. Áin var blá af laxi en merkilegt nokk sáralítil taka. Þetta var magnað. Veiddum samt nokkra laxa en mér leið eins og ég kynni ekki að veiða á köflum í þeim túr við topp aðstæður. Þetta átti við um fleiri ár í júlí á Norðurlandi.

Veiðimaður kastar fyrir lax í Berghyl í Fljótaá. Bæði Höskuldur …
Veiðimaður kastar fyrir lax í Berghyl í Fljótaá. Bæði Höskuldur B. Erlingsson og Ingólfur Davíð gefa sumrinu einkunnina 7. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ég set alltaf meiri og meiri spurningarmerki við hvaða áhrif seiðasleppinga árnar hafa á villta laxinn í hafi. Þarf ekki að fara gera einhverja úttekt á þessu og rannsóknir ?

Það góða við sumarið er að en kemur lax. Heildar þróunin er beint niður á við og hef ég miklar áhyggjur af raunástandi stofna víða. Það er veitt og sleppt í flestum náttúrulegum ám sem skekkir rauntölur og stærðir. Það er eitthvað bogið við það hversu lítið er af 90+ fiskum að veiðast en svakalega mikið af 100+ fiskum. Ísland verður seint talið stórlaxaland.

Svo vekur athygli hversu mikil notkun er á stórum túpum í vatnslitlum ám. Ég hef ekki trú á að það sé að hjálpa heildarveiðinni og sannarlega ekki þeim sem á eftir koma . Svo er ekki annað að sjá en að við séum almennt að tapa kunnáttu að lesa rétt á málband.

Það sem þyrfti helst að breytast er að við ættum að hampa veiðihetjum minna heldur setja fókusinn á gleðina og ánægjuna. Ekki hversu marga við veiðum eða stóra því raunverulegi sigurvegarinn er jú sá sem hefur mest gaman og er með gott mannorð. En ef ég ætti að gefa sumrinu einkunn þá gef ég því 9,5 skemmtanagildi og lærði helling þetta árið og hitti margt æðislegt fólk og borðaði of mikið af alltof góðum mat. Veiðilega gef ég því einkunnina 7, þegar ég horfi á tölulegar staðreyndir, bæði fjölda fiska og stærðir.“

Á næstu dögum birtast fleiri svör frá veiðimönnum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert