Við höldum áfram að gera upp veiðisumarið, jafnvel þó svo að því sé alls ekki lokið hjá öllum, til dæmis viðmælanda okkar í dag, sem er Kristján Páll Rafnsson.
„Það er ekki búið hjá mér sumarið fyrr en seint í október og því er loka einkunn ekki komin í hús, af minni hálfu.
Það sem af er tímabilinu hefur verið mjög gott. Marga mjög stóra silunga hef ég dregið víðsvegar um landið og þó nokkra laxa en enga risa þó.
Vorið kom seint en þegar það kom var urriðaveiðin hjá mér ævintýraleg. Byrjað var í Tungufljótinu og þar gerði ég gott mót í mokveiði. Fiskurinn var blandaður í holdafari þar og var megnið í mjög góðum holdum. Það er hugsanlegt að sumir sjóbirtinganna séu að ganga um miðjan vetur því að þeir voru sumir spikaðir. Marga urriða fékk ég í Þingvallavatni í kringum áttatíu sentímetra og var sá stærsti 84.
Sumarveiðin hjá mér var algerlega sturluð. Kaldakvísl og Tungná stóðu fyrir sínu sem og Þingvallavatn og Villingavatn. Það var frekar rólegt í Úlfljótsvatni þetta sumarið einhverra, hluta vegna. Það var eins og bleikjan kæmi ekki almennilega upp á grunnslóðir. Það sem stóð upp úr í miðsumarveiðinni var Norðlingafljótið. Ég fékk eina af stærstu bleikjum sem ég hef veitt en hún var sennilega um átta pund.
Laxveiðina stundaði ég eingöngu í Soginu og Tungufljóti í Skaftártungu og gekk bara vel. Mig minnir að sá stærsti hafi verið 81 sentímetrar úr Soginu. Ég missti einn mjög vænan í Soginu og einnig risalax í Tungufljóti. Fljótið er jú þekktast fyrir sjóbirting en töluvert af laxi gengur í það og flestir í ágúst. Nú er sjóbirtingsveiðin á fullu skriði og ég er búinn að fá marga bolta á milli 70 og 80 sentímetra. Tvo risa sem voru 88 og 93 sentímetrar. Eins og staðan er núna þá er einkunnin í 8.5, fyrir sumarið. Ef ég myndi landa laxi í 90+ flokknum þá myndi ég gefa sumrinu 9.5 í einkunn. Það er enn smá séns. Við sjáum hvernig þetta fer,“ sagði Kristján Páll Rafnsson
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |