Veiðisumarið er að klárast. Margar laxveiðiár hafa þegar lokað og í öðrum eru síðustu veiðidagarnir að klárast um helgina. Þetta sést glögglega í nýjum veiðitölum sem birtust á vef Landssambands Veiðifélaga í morgun.
Greinilegt er að víða hefur hægt á veiði og þannig skilaði til að mynda Eystri Rangá rétt rúmlega hundrað laxa viku. Nokkrar af stóru ánum birta lokatölur núna. Selá endaði í 1258 löxum sem er nokkru minni veiði en í fyrra þegar hún endaði í tæplega fimmtán hundruð fiskum.
Haffjarðará endaði í 1126 löxum sem er gríðarleg bæting frá í fyrra þegar lokatalan var 651 lax.
Hofsá fór yfir þúsund laxa í fyrsta skipti síðan 2013 og endaði í 1017 á móti 711 í fyrra.
Norðurá var rétt undir þúsund löxum en miklu betri en hörmungasumarið í fyrra. Þá skilaði hún ekki nema 577 fiskum.
Laxá á Ásum dalaði nokkuð frá því fyrra. Hún endaði í 675 löxum á móti 807 í fyrra.
Elliðaárnar voru á svipuðu róli og fyrra. Gáfu í sumar 565 laxa á móti 537 í fyrra.
Lokatölur í Laxá í Aðaldal eru áhyggjuefni. Áin endaði í 382 löxum og hefur ekki átt svo slakt sumar eins langt og tölur á angling.is sýna.
Sjóbirtingsveiðin er enn á fullu og víða er veitt langt fram í október í birtingnum. Sama er raunar að segja um Rangárnar og fleiri ár þar fyrir austan, þar sem stundaðar eru stórfelldar seiðasleppingar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |