Nils Folmer Jörgensen, danski stórlaxasegullinn setti í og landaði fjórða hundraðkallinum sínum í sumar. Í morgun átti hann ásinn í Víðidal og fór þangað með Jóhanni Hafnfjörð Rafnssyni félaga sínum. Fljótlega setti Nils í og landaði 94 sentímetra hæng, efst í svokallaðri rennu í Harðareyrarstreng. Sá tók Green But túpu.
„Eftir að ég sleppti honum sá ég stóran fisk stökkva miklu neðar. Ég rauk þangað og vildi kasta á fisk sem var að hreyfa sig. Ég setti undir fluguna mína Tin Tin og var með hana á sökkenda. Fluga númer tólf hnýtt á gullkrók. Í svona fimmta kasti tók þessi hrygna. Hún var hrikalega sterk og ég sá ekki fiskinn fyrr en eftir langan tíma. Þá varð ég hálf hissa því ég hélt að hann væri mun stærri, svo sterk var hún,“ sagði Nils í samtali við Sporðaköst fljótlega eftir að hafa landað hrygnunni sem mældist sléttir hundrað sentímetrar.
Þetta er áttundi hundraðkallinn sem veiðist í Víðidalsá í sumar. Nils Folmer hefur landað fjórum slíkum löxum sumarið 2020 eins og sjá má í hundraðkallalista Sporðakasta. Tvo hefur hann fengið í Víðidalsá, einn í Vatnsdalsá og einn í Laxá í Aðaldal á Nessvæðinu.
Þessi tölfræði þýðir að Nils hefur landað tíu prósent af þeim hundraðköllum sem Sporðaköst hafa fengið fréttir af á þessu sumri.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |