Nú eru að verða síðustu forvöð að skila inn veiðimyndum í samkeppni mbl.is, Veiðihornsins og Sporðakasta um bestu veiðimyndir sumarsins. Skilafrestur rennur út 1. október. Nú er tíminn til að fara í gegnum myndir sumarsins og deila skemmtilegum eða fróðlegum augnablikum með öðrum veiðimönnum.
Hér eru nokkur skemmtileg dæmi um myndir sem nýlega voru sendar inn. Fyrsta myndin er af honum Óskari Hæng Gíslasyni með 75 sentímetra lax í Svalbarðsselshyl í Svalbarðsá. Óskar er ellefu ára og ljóst að hann verður öflugur veiðimaður, og er það reyndar nú þegar.
Næst er það ung stúlka. Helga Dís Reynisdóttir með maríulaxinn sinn úr Eystri Rangá og hann var veiddur í veiðistaðnum Hrafnaklettum. Pabbi hennar tók myndina en hann er Reynir Sigmundsson leiðsögumaður í Eystri.
Þá er það mynd af hálendinu. Hrannar Ingi með bleikju sem veidd var í Ljótapolli. Myndasmiður er Tinna Torfadóttir.
Veiðimaður er Finnur Már Eyþórsson og myndatökumaður er Knútur Magnús Björnsson. Hér er 66 sentímetra sjóbirtingur að sýna loftfimleika í Varma við Hveragerði. Myndin er tekin 17. september.
Í sumar veitum við verðlaun fyrir fjóra flokka mynda. Þeir eru eftirfarandi: Ungir veiðimenn, Veiðikonur, Stórir fiskar og loks Veiðimynd ársins.
Vegleg verðlaun verða veitt í hverjum flokki:
Ungir veiðimenn – Redington-krakkafluguveiðipakki.
Veiðikonur – Simms G3 Guide Gore-tex-dömuveiðijakki.
Stórir fiskar – Mclean-háfur með innbyggðri vigt.
Veiðimynd ársins – Sage Igniter-einhenda.
Allar myndir sem sendar eru til þátttöku eru gjaldgengar og mun dómnefnd skipuð reynsluboltum, bæði í veiði og ljósmyndun, fara yfir og meta hvern flokk fyrir sig.
Þær myndir sem sendar eru inn er heimilt að birta í árlegu riti Veiðihornsins, Veiði 2021 og/eða öðrum auglýsingum Veiðihornsins. Með því að senda mynd samþykkir ljósmyndari slíka notkun á henni.
Senda skal myndirnar í góðri upplausn á netfangið eggertskula@mbl.is. Greina skal frá hvar myndin er tekin og hvað var að gerast. Þá er nauðsynlegt að fá nöfn þeirra sem eru á myndinni og ekki síst hver tók hana, því það er sá sem hlýtur verðlaunin ef vel tekst til.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |