Friðjón með þann stærsta úr Stóru

Friðjón Mar með hænginn úr Kóngsbakka sem tók lítinn grænan …
Friðjón Mar með hænginn úr Kóngsbakka sem tók lítinn grænan Bismó. Ljósmynd/Aðsend

Lokahollið í Stóru-Laxá er nú að veiðum. Þessi tími í ánni er ótrúlega spennandi og ef vatnsmagn er gott er laxinn genginn upp af Iðu í Stóru-Laxá. Friðjón Mar Sveinbjörnsson eigandi og rekstraraðili í Veiðiflugum á Langholtsvegi er einn af þeim sem veiða lokahollið.

„Ég fór niður í Kóngsbakka og setti undir lítinn Bismó, svona Rögga grænan. Ég var búinn að vinna mig niður staðinn og var farinn að hugsa hvað ég væri að gera með þetta smápöddudrasl, þegar hann allt í einu kom upp og negldi Bismóinn,“ sagði Friðjón í samtali við Sporðaköst.

Hann áttaði sig fljótlega á að þetta var fiskur í yfirstærð og hann missti hann niður úr hylnum. Stóra-Laxá var í miklu vatni og hvergi væð. Fiskurinn æddi niður og það var ekki fyrr en á næsta veiðistað sem Friðjón hafði betur eftir ríflega hálfan kílómetra af hlaupum. Laxinn var háfaður og þar var að verki Sigmundur Sigurðsson. Friðjón sagði honum að koma sér fyrir og hann myndi renna laxinum í háfinn. Þá voru þeir komnir niður í Stekkjarnef. Það gekk eftir og skyndilega hrópaði Sigmundur: „Hann er kominn í,“ eftir að Friðjón hafði stýrt honum í háfinn.

Höfðingjanum sleppt á nýjan leik. Stirtlan er þykk og oft …
Höfðingjanum sleppt á nýjan leik. Stirtlan er þykk og oft er það besta merkið um alvöru stórlax þegar veiðimaður nær ekki utan um hana. Ljósmynd/Aðsend

Fiskurinn var mældur og stendur vel 101 sentímetra. Þar með er þetta stærsti lax veiddur í Stóru-Laxá í sumar. Friðjón, sem er jafnvel betur þekktur sem Friðbert í Furðuflugum, var afskaplega ánægður með þessa niðurstöðu. „Ég er búinn að vera að veiða víða í sumar og þetta er fyrsti sem er yfir níutíu sentímetra,“ hló hann.

Mælingin. Hann stóð 101 sentímeter og er sá stærsti sem …
Mælingin. Hann stóð 101 sentímeter og er sá stærsti sem Stóra Laxá hefur gefið í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Stóra-Laxá er mjög vatnsmikil eftir gríðarlegar rigningar síðustu daga. Stóra er þekkt fyrir góða septemberspretti. Hún var í síðustu vikutölum á angling.is komin í 387 laxa. Í fyrra var hún samtals með 480 fiska þannig að ljóst er að hún nær því ekki. Stefnir árið í ár í að vera eitt af lakari árum í Stóru í langan tíma og þarf að fara aftur til 2007 til finna minni veiði, en þá veiddust 238 laxar í henni. Sveiflurnar eru miklar og má nefna til samanburðar að árið 2013 gaf hún 1.776 laxa.

UPPFÆRT

Hér sést greinilega að málbandið er á réttum stað. Þetta …
Hér sést greinilega að málbandið er á réttum stað. Þetta er stækkuð mynd úr mynd sem er ofar á síðunni. Ljósmynd/Aðsend

Nokkrir nærsýnir einstaklingar höfðu samband við Sporðaköst og töldu mælinguna á fiskinum sem Friðjón Mar landaði í gær ekki vera rétta. Sporðaköst höfðu samband við Friðjón og báðu um stækkun á myndinni sem hann tók og staðfestir það rétta mælingu á fiskinum, sem mældist 101 sentímetri. Svo er bara spurning um að fá sér betri gleraugu.

Hér geta menn dæmt þetta betur. Mikið hefur verið um …
Hér geta menn dæmt þetta betur. Mikið hefur verið um það í sumar að menn dragi mælingar í efa. Þessi mynd er klár staðfesting. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert