Sjaldan verið jafn þungt í veiðimönnum

Óli með hann á í Línufljóti í Vatnsdalsá. Þessum var …
Óli með hann á í Línufljóti í Vatnsdalsá. Þessum var landað og hann mældist rétt tæpir áttatíu sentímetrar. Ólafur er með puttann á púlsinum og hittir tugi veiðimanna á degi hverjum. Hann segir óvenju þungt í mönnum. Ljósmynd/María Anna Clausen

Ólafur Vigfússon kaupmaður í Veiðihorninu í Síðumúla hittir tugi veiðimanna á hverjum degi á búðargólfinu og hefur gert það í allt sumar. Við heyrðum hljóðið í Ólafi fyrir fundinn sem haldinn verður á eftir í beinu streymi á mbl.is undir yfirskriftinni: Hvað er að gerast í laxveiðinni. Fundurinn hefst klukkan 17:30 í dag.

“Ég hef á tilfinningunni að sjaldan hafi verið þyngra í laxveiðimönnum en nú svo það er gott að fá þennan umræðufund á þessum tímapunkti. Ég held líka að það sé gott að fundurinn er undir þeim formerkjum að heyra raddir veiðimanna,” sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.

Með bjartan lax í Hnausastreng, Þeim magnaða veiðistað í Vatnsdalsá.
Með bjartan lax í Hnausastreng, Þeim magnaða veiðistað í Vatnsdalsá. Ljósmynd/María Anna Clausen

Hvað liggur mönnum helst á hjarta miðað við þau samtöl sem þú hefur tekið?

“Menn benda á það að gæði laxveiða á Íslandi eru langt frá því að vera þau sömu og þau voru fyrir fáeinum árum.  Margir þættir spila þar inn í bæði óviðráðanlegir þættir svo sem óútskýranlegar lélegar heimtur úr hafi og breytt veðurfar, svo sem þurrkar en einnig viðráðanlegir þættir svo sem fjölgun stanga í mörgum ám með tilheyrandi auknu veiðiálagi. 

Margir útlendingar sem við heyrum í árlega nefna einmitt þetta að varan sem þeir kaupa nú dýrum dómi er ekki sama vara og þeir gengu að áður.

Laxveiði hefur alltaf verið dýrt sport en nú er fjarri því að verð sé í nokkru samræmi við gæði vörunnar. 

Við þetta bætist svo að kostnaður við fæði og gistingu er út úr korti víða.  Ef við hjónin skreppum saman í laxveiði borgum við 200 til 240 þúsund fyrir mat og gistingu í þrjá daga sem er allnokkuð ofan á dýr veiðileyfin. 

Ef við hjónin kaupum hótelherbergi í eina nótt borgum við kannski 20.000 saman fyrir herbergi og morgunmat en ef við gistum í veiðihúsi borgum við 20.000 hvort okkar eða 40.000 krónur. Hvar eru rökin fyrir því?”

Enn einn úr Vatnsdalsá. Ólafur segir veiðimenn hafa rætt mikið …
Enn einn úr Vatnsdalsá. Ólafur segir veiðimenn hafa rætt mikið um verð á veiðileyfum og ekki síður verð fyrir fæði í veiðihúsum. Ljósmynd/María Anna Clausen

Hefur þú orðið var við umræðu um styttan veiðitíma?

“Já hjá mörgum af mínum viðskiptavinum. Það er víða búið að stytta veiðitíma um jafnvel tvær klukkustundir á dag.  Ekki farið út fyrr en klukkan átta í staðinn fyrir sjö og jafnvel veitt skemur á kvöldin.  Það er búið að klípa eina vakt af þriggja daga veiði og auk þess er veiðimönnum víða gert að hætta klukkan tólf á síðustu vakt.  Allt þetta er gert með þeim rökum að þetta sé fyrir starfsfólkið í veiðihúsum.”

Hvað með hið klassíska mál á dagskrá? Veiða/sleppa og kvótafyrirkomulag?

“Það sorglega við þetta er að veiða/sleppa auk stífs kvóta hefur fælt marga veiðimenn frá laxveiði. Það hefur sýnt sig að veiða/sleppa fyrirkomulag í laxveiðiám gerir lítið fyrir árnar.  Að lokum vil ég nefna að ég heyri að forræðishyggjan sem víða er að færast í aukana er að fæla marga burt úr sportinu.

“Þessi fluga fer aldrei ofan í þessa á” eru orð sem veiðileiðsögumaður nokkur sagði við vin minn sem var við veiðar í Borgarfirði en viðkomandi ætlaði að setja litla en þunga túpu út í stóran hyl þar sem ekkert var að gerast. Þetta er nú bara eitt dæmi af mörgum en flest af þessu ber að sama brunni,” segir Ólafur.

Það er ljóst á þeim punktum sem hann nefnir hér að mörgum veiðimönnum finnst að sér þrengt og það á flestum sviðum. Fundurinn sem mbl.is og Sporðaköst senda út klukkan 17:30 mun ræða þessa hluti og vonandi fleiri.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert