„Allt er í klessu og fer versnandi“

Bjarni Júlíusson með fyrsta laxinn í Norðurá sumarið 2010. Hann …
Bjarni Júlíusson með fyrsta laxinn í Norðurá sumarið 2010. Hann er mjög hugsi yfir stöðu mála í laxveiðinni.

Það var þungt í Bjarna Júlíussyni fyrrverandi formanni Stangaveiðifélags Reykjavíkur á streymisfundi mbl.is, Sporðakasta og Veiðihornsins. Hann var í panel til að ræða yfirskrift fundarins: Hvað er að gerast í laxveiðinni? Bjarni vildi gagnrýna þrennt.

Hann sagðist hafa veitt lax í meira en 50 ár og nú væri hann vægast sagt hugsi yfir stöðu mála.

„Í fyrsta lagi var raunveruleg og náttúruleg veiði sumarsins 2020 beinlínis ömurleg.  Við vitum að veiðin 2019 var arfaslök. Uppgefin veiði var um 29.000 laxar. En náttúruleg veiði þ.e. þegar við drögum frá laxveiði í hafbeitaránum og drögum frá þá laxa sem tví eða þríveiddust, þá var veiðin í fyrra undir 20.000 löxum, sennilega lélegasta veiði í hálfa öld.

Laxveiðin í sumar var ekkert betri. Heildarveiðin um 35.000 laxar, en náttúrleg veiði um 20.000 fiskar.

Sex af síðustu tíu árum hafa verið arfaslök.

  • 2019 var endurmetin veiðitala um 20.000 laxar, en laxveiðin um eða innan við 30.000 laxar
  • Í ár er laxveiðin 30 – 35.000 laxar. Drögum frá Eystri og Ytri, Þverá í Fljótshlíð, Jöklu oþh,
  • Um 40% af veiði er síðan sleppt og um 1/3 af þeim endurveiddur. Drögum það frá líka. Þá fæst eitthvað sem ég kalla náttúruleg veiði.
  • Eftir stendur að náttúruleg veiði er um 20.000 laxar síðsta sumar
  • Sex ár af síðustu tíu hafa verið hörmuleg
  • Sveiflurnar í veiðinni (og þar með náttúrulegum stofni) eru ótrúlegar. Þegar náttúran tekur uppá að sveiflast með þessum hætti þá er eitthvað mikið að.
Hér er línurit sem Bjarni vann út frá þeim forsendum …
Hér er línurit sem Bjarni vann út frá þeim forsendum sem hann gefur sér í punktunum. Graf/Bjarni Júlíusson

Í öðru lagi þá er eitthvað mikið að þessari aðferðafræði sem við erum að nota til að byggja upp stofnana.

Í 25 ár höfum við veiðimenn tekið ríkan þátt í uppbyggingu veiðisvæða.  Við sleppum nú nánast öllum stórlaxi, sleppum yfir 50% af öllu sem við veiðum. Erum hættir að veiða á maðk og spún. Sum staðar sleppum við öllu sem við veiðum.

Ég dáist líka að framlagi veiðiréttareigenda sem hafa margir hverjir lagt mikið á sig til uppbyggingar. Gert laxastiga, flutt laxa og hrogn á ólaxgeng svæði og guð má vita hvað.

En árangurinn er enginn og niðurstaðan er sú að allt er í klessu og fer versnandi. Að minnsta kosti eru síðustu 10 árin ekki vitnisburður um að við séum á réttri leið.

Í þriðja lagi er komin einhver forræðishyggja í þetta og ofstjórnun sem mér og mörgum öðrum veiðimönnum hugnast ekki.

Nú megum við ekki byrja klukkan 07.00 á morgnana því staffið í veiðihúsunum þarf að sofa.  Veiðihúsin hafa svo mörg hver breyst í margra stjörnu hótel, með landsliðskokkum og fíneríi, þar sem gisting fyrir hjón kostar 70 – 80.000 yfir nóttina. Þetta er næstum kvartmilljón í þriggja daga veiðiferð.

Sum staðar er okkur orðið skylt að kaupa okkur leiðsögumenn (veiðivörð) og borga honum 50.000 krónur á dag. Sjálfur hef ég veitt lax í meira en hálfa öld og tel mig ekki þurfa leiðsögumann.

Þarna er kominn hliðarkostnaður uppá nærri hálfa milljón og það áður en við förum að borga veiðileyfið.

En þessi leiðsögumaður getur auðvitað hjálpað okkur að fara eftir reglunum sem búið er að þvæla og flækja út í hið óendanlega. Sum staðar má ekki nota sökklínur,  í sumum tilvikum má ekki nota túbur, sumar ár leyfa reyndar ½“ túbu eftir kl 18.00, stundum eru þríkrækjur bannaðar og jafnvel hef ég heyrt af banni við notkun á Frances flugu stærri en #8.  Sumir gretta sig þegar ég segist hafa fengi lax á 1“ Sunray. Ég bíð bara eftir að þeir banni Green Highlander #12, þá er ég hættur.

Verð veiðileyfa hefur hækkað úr öllu valdi. Það er erfitt að meta þetta heildstætt yfir alla línuna en mig grunar að verðileyfin hafi hækkað um amk þrefalt umfram verðbólgu síðustu 25 ár. Þegar það fer saman við minnkandi veiði eins og nú hefur gerst, þá held ég að ýmsir veiðimenn hugsi sinn gang.

Félagar, þetta er ekki gamla góða sportið mitt. Ég hef einfaldlega ekki efni á þessu lengur og verra en það, ég nenni þessu ekki lengur!“

Byggt á þeim punktum sem Bjarni Júlíusson var með sér á streymisfundinum
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert