Meiri breytileiki í fiskgengd og veiði

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Hér birtist framsagan sem hann …
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Hér birtist framsagan sem hann hélt á streymisfundi á mbl.is. Guðni er hér við rafveiðar á seiðum. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Guðbergsson sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun flutti framsögu á streymisfundi mbl.is, Sporðakasta og Veiðihornsins í gær. Framsaga hans er birt hér í heild sinni. Yfirskrift fundarins var: Hvað er að gerast í laxveiðinni?

„Veiðitímabilinu 2020 er nú lokið ef frá eru taldar hafbeitarárnar.

Það sumar sem nú er afstaðið fer ekki víða í sögubækurnar vegna metveiði en þó eru þar undantekningar, t.d. Þjórsá, (Urriðafoss), Jökla, Eystri-Rangá.

Reyndar sagði leigutaki eitt sinn að það væri verst að fá metveiði, því það setti viðmiðið sem menn alltaf vildu hafa.

Síðasta áratug höfum við séð meiri breytileika í fiskgengd og veiði en áður hefur sést. Áður voru laxastofnar í ca 10 ára sveiflu en við sáum mjög óvanalegar breytingar 2012 þegar fiskgengd og veiði fór mikið niður, 2013 aftur upp, 2014 niður og svo 2019 niður. Nú 2020 er aukning frá fyrra ári víðast hvar en með undantekningum.

Fjöldi þeirra fiska sem gengur í árnar eru fall af þeim fjölda seiða sem gengur úr ánum til sjávar og síðan hvað skilar sér til baka úr hafi.

Lög um lax- og silungsveiði gera ráð fyrir sjálfbærri nýtingu þ.e. að ekki sé gengið á stofna. Alþjóða hafrannsóknaráðið (ICES) og Alþjóða laxaverndunarstofnunin (NASCO) hafa gefið út að sett skuli viðmiðunarmörk fyrir alla laxastofna við Atlantshaf og að miða skuli hrygningarstofna við hámarks afrakstur eftir hver foreldri. Hér á landi miðum við reyndar fremur við fjölda en afrakstur. Það þýðir að miða skuli nýtingu við að skilja eftir í ánum þann hrygningarstofn sem tryggir hámarks seiðaframleiðslu. Það sem er umfram þann hrygningarstofn er það sem er til skiptanna fyrir veiðimenn. Fiskstofnar, almennt, hafa jafnan getu til að gefa af sér meira en þessu nemur sem gerir að verkum að við getum stundað veiðar. Ef veitt er umfram það sem þarf til viðhalds er gengið á stofna og t.d. eru merki um slíkt þegar þeir sveiflast um sífellt lægra meðaltal.

Afkoma seiða í ám getur verið breytileg en er oftar en ekki verið í takti við stærð hrygningarstofns. Við höfum verið að meta tengsl hrygningarsofna og nýliðunar og í mjög mörgum ám hefur hann of oft verið undir viðmiðunarmörkum. Klárlega á árunum upp úr 1980.

Endurheimtur úr sjó hafa verið breytilegar en þær eru mun hærri á SV landi en N og A landi. Endurheimtur í Elliðaánum eru að meðaltali rúm 9% en undir 2% í Vesturdalsá í Vopnafirði.

Í Elliðaánum hafa sést endurheimtur frá rúmum 4% og upp í 20% og augljóslega munar miklu hvort 1 af hverjum 5 löxum snýr til baka eða einn af hverjum 20.

Í raun er eitt af því fáa sem við getum gert er að takmarka það sem við veiðum. Það eru fáar stilliskrúfur í ánum og hafinu sem við náum í til að hafa áhrif.

Endurheimtur laxa í N-Atlantshafi hafa almennt farið lækkandi. Hér á landi höfum ekki séð það í þeim tveimur ám sem við höfum mælingar úr. Þyrftum reyndar að hafa fleiri ár með slíkum mælingum og þá helst á V-landi þar sem 40 laxastofna landsins eru.

En hvað veldur lækkandi endurheimtum? Stundum er hlýnun kennt um. Hlýnun hefur ekki fjarvistarsönnun og er líklega um að kenna á suðurhluta útbreiðslusvæðisins USA og S-Evrópu.

Hér á landi eru ekki merki um slíkt og endurheimtur líklega frekar háðar afráni en fæðu. Þorskur, hákarl, hvalir fuglar ofl frekar en fæðuskortur þótt eflaust sé um samspil að ræða. Möguleg samkeppni frá makríl eða við aðrar tegundir.

Hrygningarstofnar áranna 2012 og 2014 voru víðast langt undir viðmiðunarmörkum og við höfum verið að sjá áhrif þess í göngum og veiði einkum 2019 og svo aftur 2020. Þannig verður um einskonar

endurvarp að ræða sem ýmist getur aukist eða minnkað eftir aðstæðum. Litlir hrygningarstofnar áranna 2019 og 2020 gætu átt eftir að fylgja áfram inn í seiðaframleiðslu komandi ára.

Skilyrðin í ánum 2019 voru mjög óvenjuleg. Vorleysingar voru afstaðnar í apríl og lágrennsli nær allt sumarið. Í lágrennsli geta afföll seiða aukist einkum í smáum ám. Sumarið 2019 var Hafrannsóknastofnun með tilmæli til veiðimanna um að gæta hófs við veiðar enda göngur litlar og vatnsrennsli lítið.

Eins og staðan er nú er ekki hægt að segja að neinir laxastofnar hér á landi séu í hættu sem slíkir. Sumstaðar hefði þurft að draga fyrr úr sókn en á móti kemur að víða var dregið úr sókn með V&S og t.d. í Þistilfjarðaránum hefur seiðaframleiðsla ánna aukist. Einnig eru sterkar líkur til að göngur væru stærri á sumum svæðum ef hugað hefði verið fyrr að því að draga úr sókn þótt sóknin hafi ekki alltaf verið frumorsök fyrir minni endurheimtum.

Eftir því sé ég heyri er vandi í laxveiðinni fyrst og framest rekstrarvandi a.m.k. enn sem komið er.

Heilt yfir hefur nýting laxastofna á Íslandi gengið vel m.a. vegna framsýni frumkvöðla og skýru regluverki. Í síbreytilegu umhverfi er mikilvægt að vera með vöktunarrannsóknir og auka þekkingu og skilning til að byggja á. Laxveiðar eru verðmæt auðlind sem skapar gjaldeyri og veitir fé frá þéttbýli til dreifbýlis og er víða undirstaða afkomu í dreifðum byggðum. Ég vil meina að það fjármagn sem skilar sér til rannsókna sé hlutfallslega lítið m.v. mikilvægi auðlindarinnar en taka verður fram að mörg veiðifélög leggja umtalsvert til vöktunar og rannsókna.

Þegar verr gengur verða uppi háværar raddir um að nú verði að gera eitthvað. Þetta eitthvað verður oft til á síðkvöldum í veiðihúsum og oft stutt í patent lausnir. Það er ekki víst að það séu til neinar patent lausnir. Sumarið 2019 var lágrennsli og þá voru margir að velta fyrir sér vatnsmiðlunum til að grípa til í lágrennslisárum. Fiskrækt með seiðum eða hrognagreftri tekur 5-6 ár þar til það skilar sér í fiskgengd og veiði. Það er heldur ekki rökrétt að taka hrogn úr ám til hrognagraftrar eða inn í eldisstöð til að fara með aftur út í á. Það fjölgar ekki hrognum í ánum og ekki tilbóta ef stofnar eru undir viðmiðunarmörkum. Ef þeir eru yfir má flytja til fiska eða seiði og nýta ófiskgeng svæði sem þá stækkar uppeldissvæði áa.

Þekking hefur aukist. T.d. hefur komið í ljós að hiti á klakvatni hefur áhrif á genatjáningu við þroskun hrogna sem svo aftur kemur fram í lífssögu stofna t.d. til seinkunar á göngutíma úr sjó.

Það hvort lax er eitt ár í sjó eða tvö erfist á einu erfðamarki þar sem genatjáningin er ólík hjá hængum en hrygnum. Það gerir að verkum að hlutfall hrygna er ávalt hærra hjá tveggja ára laxi og hænga í smálaxi.

Vatnshiti – þótt það hafi hlýnað hér á landi þá eru hitamælarnir í ánum ekki að sýna hærri sumarhita. Aftur á móti hlýrri vor og haust. Yfir veturinn er hiti nærri 0 gráðum sem og þá er lítið að gerast. Sumarhiti í ám hækkaði til 2003, vaxtarhraði seiða jókst og aldur gönguseiða lækkaði. Vatnshiti sumarmánaða lækkaði svo aftur til 2015 og hefur verið sveiflukenndur síðan. Vöxtur laxaseiða fer ekki af stað fyrr en vatnshiti er kominn í 5-7°C og útganga gönguseiða ekki fyrr en vatnhiti fer yfir 10°C. Þannig getur framleiðsla seiða á efrisvæðum áa orðið stopul í köldum árum.

Hér á landi hefur verið hátt veiðiálag um 50% á smálaxi og 70-80% á stórlaxi. Það eru sterkar líkur til að hátt veiðiálag hafi átt stóran þátt í fækkun stórlaxa. Verulega var dregið úr þessu veiðiálagi eftir 2000 með V&S og nú fer stórlaxi aftur fjölgandi. Vonandi verður hægt að greina frekar ástæður þess þegar frá líður.

Framtíðin. Þeir árgangar sem ganga út á næstu 2-3 árum hafa yfirleitt mælst yfir meðallagi sem gefur góð fyrirheit. Hverjar endurheimturnar verða er svo ekki þekkt og afar erfitt að sjá fyrir.

Það er mikilvægt að passa upp á að viðhalda vatnsgæðum og búsvæðum ánna og miða veiðisókn við veiðiþol stofna innan marka sjálfbærrar nýtingar. Inngrip verði ekki án þess að þau séu ígrunduð og þörf ásamt áhættu sé metin.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert