Nýr leigutaki með Laxá í Kjós

Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu í …
Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu í sumar. Félagið hans Höklar ehf mun næstu árin vera með Laxá í Kjós á leigu. Ljósmynd/ES

Veiðifélag Kjósarhrepps hefur undirritað samning við nýjan leigutaka til næstu ára. Það er félagið Höklar ehf. sem gerði samning um Laxá í Kjós, Bugðu og Meðalfellsvatn. Í forsvari fyrir nýjan leigutaka er reynslubolti í Kjósinni sem segja má að hafi nánast alist upp á bökkum Laxár. Þetta er Haraldur Eiríksson. Félagið Hreggnasi ehf. hefur verið með Laxá í Kjós síðustu ár en sá samningur hafði runnið sitt skeið. Guðmundur Magnússon, formaður Veiðifélags Kjósarhrepps, staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst í morgun.

Haraldur Eiríksson hefur verið leiðsögumaður við Laxá í Kjós frá því á síðustu öld. „Já við erum búin að ganga frá samningi og hann felur í sér lækkun þannig að við getum lækkað veiðileyfi umtalsvert í ágústmánuði,“ sagði Haraldur Eiríksson í samtali við Sporðaköst. Guðmundur formaður staðfesti einnig að lækkun væri á leiguverðinu frá því sem verið hefur. 

Breskur veiðimaður með bjartan lax úr Laxá í Kjós. Gylfi …
Breskur veiðimaður með bjartan lax úr Laxá í Kjós. Gylfi Gautur Pétursson og Haraldur EIríksson standa hjá. Haraldur Eiríksson

„Ég sé ekki betur en að markaðurinn sé að fara í þessa átt, að landeigendur séu að taka á sig lækkanir þó að það sé ekki algilt. Óvissan er bara svo mikil að það veit enginn hvert þessi pest mun leiða okkur. Menn verða að snúa bökum saman við þessar aðstæður. Við gerðum það í kringum hrunið en munurinn núna er sá að þetta er að hafa áhrif á allan heiminn,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði sérstakt gleðiefni að fá Halla að rekstrinum enda þekkti hann Kjósina betur en flestir.

„Heildarverðskráin mun lækka fyrir næsta sumar. Við erum ekki að lækka framan af sumri því þá eru stangir svo fáar.  En frá lokum júlí og út ágúst lækkum við verðið um allt að þrjátíu og fimm prósent. Laxá í Kjós og Bugða eru að stimpla sig inn sem eitt besta síðsumarsvæði landsins. Laxinn getur gengið upp í Meðalfellsvatn á nokkrum klukkutímum og hverfur í vatnið. Svo þegar fer að rigna þá sakkar hann sér niður í Bugðu og þá er það mikið af fiski. Svipað er uppi á teningnum varðandi Þórufossinn sem er friðaður fyrir veiði,“ sagði Halli.

Hann boðar breytingar varðandi veiðihúsið og hvernig staðið verður að rekstri þess, en vill bíða betri tíma með að kynna þær breytingar.

Veiðin í Laxá í Kjós hefur sveiflast mjög mikið síðasta áratug. Sitt versta ár átti hún í fyrra þegar einungis 372 laxar veiddust. Allt önnur staða var í sumar og er Kjósin nú komin yfir þúsund laxa á þessari vertíð. Ekki liggja fyrir lokatölur. Síðasta tala sem miðast við 30. september er 1.015 laxar samkvæmt vef Landssambands veiðifélaga, angling.is.

Mjög góð sjóbirtingsveiði er einnig í Kjósinni og hefur hún farið vaxandi síðustu ár.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert