Mikil óvissa ríkir á laxveiðimarkaði. Þessi óvissa snýr að nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi standa víða yfir viðræður milli landeigenda og leigutaka. Óvíst er hvernig þeim viðræðum mun ljúka en ljóst að mikið tekjutap varð víða á þessum markaði í sumar.
Í öðru lagi er alger óvissa um sölumál fyrir næsta sumar. Þetta hafa margir leigutakar staðfest við Sporðaköst. Og eins og einn orðaði það: „Það er enginn útlendingur að fara að senda okkur peninga í dag. Þeir hlæja bara að manni ef spurt er. Menn eru til í að panta en ekki borga,“ sagði einn af mörgum leigutökum sem rætt var við.
Efnahagsástandið og slæmar horfur á Íslandi gera það líka að verkum að sala til íslenskra veiðimanna er stórt spurningarmerki. Ekki bætir úr skák að síðustu tvö sumur hafa verið léleg í laxi og krafa um lækkun á verði veiðileyfa verður sífellt háværari.
Laxá í Kjós og Bugða eru komnar í hendur nýs leigutaka og hefur hann boðað verðlækkanir yfir hluta tímans um allt að 35%. Ljóst er að leigutakar eru víða að fara fram á sambærilega hluti.
Samningur um Grímsá er laus en það er Hreggnasi ehf. sem verið hefur með ána á leigu. Viðræður standa yfir en óljóst hver niðurstaðan verður.
Það eru fram undan skrýtnir tímir á þessu sviði og ógerningur að segja fyrir um þróun mála. Hafi klisjan fordæmalausir tímar einhvern tímann átt við þá er það á þessu sviði og núna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |