Heiðarvatn í Heiðardal, skammt frá Vík í Mýrdal gaf 18 laxa og mikið af sjóbirtingi í október. Stærsti laxinn var hvorki meira né minna en 97 sentímetrar og það var Guðlaugur Helgason sem veiddi hann. Ásgeir Arnar Ásmundsson sem heldur utan um vatnasvæðið, Heiðarvatn, Vatnsá og Kerlingadalsá segir að þetta hafi komið sér skemmtilega á óvart.
„Það hefur aldrei gerst að svo margir laxar veiðist í vatninu. Svo er birtingurinn í meira magni og stærri. Veiða/sleppa í honum með hóflegum kvóta er að sýna sig vel núna,“ sagði Ásgeir í samtali við Sporðaköst.
Vatnsá rennur úr Heiðarvatni og sameinast Kerlingadalsá sem er jökullituð.
Ásgeir segir að nú sé verið að hanna teljara fyrir Vatnsá til að safna upplýsingum.
„Teljari hefði gefið miklar upplýsingar í sumar. Það sáust yfir meters birtingar á svæðinu og eins hefði ég viljað sjá laxinn stoppa meira í ánni. Stundum komu menn í Frúarhyl og sjá hann fullan af fiski en daginn eftir tóman,“ sagði Ásgeir.
Hann á von á veislu næsta vor í ljósi þessa og einnig nefnir hann að þá verði komið endurbætt hús sem mun gera dvöl veiðimanna enn betri.
Einn af þeim sem veiddu síðasta daginn í Heiðarvatni var Árni Kristinn Skúlason. Hann og félagar hans gerðu hörkuveiði. Lönduðu tuttugu fiskum og flestum af góðri stærð. Árni sendi Sporðaköstum skýrslu um síðasta veiðidaginn.
„Ég og vinur minn Auke ákváðum að taka stöng í Heiðarvatni síðasta laugardag. Heiðarvatn er í Mýrdal og er á margan hátt sérstakt vatn þar sem mikið af sjóbirtingi og laxi gengur í það.
Ég sótti Auke kortér í sex og við brunuðum austur í Mýrdal, það var heiðskýrt og við horfðum á sólin rísa, við vissum að þetta yrðu góður dagur. Við byrjuðum undir hlíðinni syðst í vatninu og á meðan Auke var að fara í vöðlurnar tók ég tvo ágæta urriða í beit, Við færðum okkur síðan á grýtta strönd þar sem ég hafði gert góða veiði áður og í fyrsta kasti fékk Auke 50 cm sjóbirting. Við slepptum honum og stuttu eftir það sé ég stóran fisk stökkva og kasta á hann. Flugan var að sökkva og pæng, það er rifið í og fiskurinn fer á fulla ferð. Þetta reyndist vera 68 cm staðbundinn urriði, vigtaður 8.5 pund í háfnum!
Veislan heldur áfram og ekki leið á löngu þangað til að Auke setti í vænan fisk, það reyndist vera lax! Fallegur hængur í haustbúningnum, stórglæsilegt eintak. Við urðum að hafa smá fyrir næsta fiski. Ég endaði með að setja í hann og var það 72 cm sjóbirtingur. Glæsileg hrygna sem tók Olive Ghost á strippinu.
Guðlaugur Helgason er sennilega sá sem þekkir Heiðarvatn hvað best af öllum veiðimönnum í dag og gerir alltaf góða veiði þar.
Ljósmynd/Aðsend
Við vorum báðir orðlausir yfir hvaða veislu við vorum komnir í. Ekki nóg með að veiðin var svona góð, það var blankalogn og sól - ekki algengt að urriði/sjóbirtingur sé svona tökuglaður í þessum aðstæðum.
Við ákváðum að taka hádegismat og fórum aftur út um klukkan tvö.
Við gengum í austurenda vatnsins og leituðum þar að fiskum og við sáum marga mjög stóra sýna sig en þeir voru flestir langt úti. Við kroppuðum samt upp fiska en þeir voru flestir 40-50cm.
Það var ekki fyrr en í ljósaskiptunum að Auke fékk einn 68cm. Alveg stórglæsilegan sjóbirting. Við enduðum daginn með 20 fiska, 19 urriða/sjóbirtinga og einn lax. Ekki slæm vatnaveiði í október!“