Veiðivertíðinni er formlega að ljúka á næstu dögum. Á þeim tíma sígur vetrarhöfgi á Sporðaköst og við segjum þetta gott í bili hér á mbl og drögum okkur í hlé með lækkandi sól.
Þetta var skemmtilegt sumar og margt fór öðruvísi en ætlað var. Það er aftur á móti ómetanlegt að hafa átt samstarf við veiðimenn í öllum landshlutum sem gerðu Sporðaköstum mögulegt að halda úti, vonandi áhugaverðri fréttasíðu um þetta sport sem svo mörg okkar hafa ánægju af.
Þetta vor einkenndist af mjög góðri sjóbirtingsveiði og svo tók silungsveiðin við og gekk víða mjög vel. Þegar kom að laxveiðinni voru margir bjartsýnir enda höfðu fiskifræðingar gefið undir fótinn með það. Annað kom á daginn og þá sérstaklega þegar horft er til náttúrulegu stofnana.
Upp úr stóðu nokkur jákvæð atriði. Eystri Rangá setti met og er áin að nálgast níu þúsund laxa. Á sama tíma var athyglisvert að fylgjast með Hofsá í Vopnafirði sem er að ná fyrri styrk og fór í fyrsta skipti í nokkuð mörg ár, yfir þúsund laxa.
Haffjarðará var full af fiski og átti gott sumar. Senuþjófur sumarsins var þó Andakílsá sem er að rísa á nýjan leik eftir mikið umhverfisslys vorið 2017. Þar var veitt á eina tilraunastöng í sumar í samráði við Hafrannsóknastofnun og virðist ljóst að áin er að endurheimta sitt fyrra form og gott betur. Miklu magni af seiðum var sleppt og verður það áfram næstu árin á meðan að stofninn er endurnýja sig. Gleðifréttirnar eru þær að töluvert var af tveggja ára laxi í ánni sem sannar að náttúrulegt klak var í henni.
Á þessum tíma þegar Sporðaköst draga sig í hlé er við hæfi að þakka samstarfsaðilum fyrir sumarið. Þar ber hæst Veiðihornið í Síðumúla og hafa þau hjónin Óli og María verið bakhjarlar Sporðakasta í sumar. Þá er sent þakklæti til þeirra fjölmörgu tíðindamanna um land allt sem sínkt og heilagt létu vita af skemmtilegum og áhugaverðum hlutum í veiðinni.
Starfsfólk mbl og Árvakurs fær þakklæti fyrir samstarfið.
Takk fyrir samfylgdina í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |