Fordæma vinnubrögð í útboði Ytri-Rangár

Mikill áhugi var á útboði á veiðirétti í Ytri-Rangá og …
Mikill áhugi var á útboði á veiðirétti í Ytri-Rangá og Vesturbakka Hólsár. Tólf tilboð bárust. Nú hafa sex tilboðsgjafar mótmælt vinnubrögðum stjórnar í tengslum við útboðið. Ljósmynd/ES

Sex tilboðsgjafar sem buðu í veiðiréttinn í Ytri-Rangá og vesturbakka Hólsár hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem þeir fordæma vinnubrögð stjórnar Veiðifélagsins í tengslum við útboð sem fram fór í síðasta mánuði.

Eins og greint hefur verið frá á Sporðaköstum hér á mbl.is bárust tólf tilboð frá níu aðilum í veiðiréttinn. Hæsta tilboð var frá Veiðifélaginu Hreggnasa, og hefur verið metið á rúmar 160 milljónir króna á ári. Stjórn Veiðifélags Ytri-Rangár og vesturbakka Hólsár, ákvað hins vegar að leggja til við félagsfund að samið verði við Iceland Outfitters, um umboðssölu á veiðileyfum á vatnasvæðinu. Stefnt er að því að félagsfundur fari fram í lok mánaðar og þar verður tillaga stjórnar kynnt.

Nú hafa sex af níu tilboðsgjöfum tilkynnt Veiðifélaginu að bjóðendur áskilji sér allan rétt að lögum og þar með talið að krefjast bóta í kjölfar ákvörðunar stjórnar Veiðifélagsins.

„Bjóðendur furða sig á þeirri niðurstöðu sem nú virðist liggja fyrir í kjölfar útboðsins, skv. fréttum, enda er hún í algjörri þversögn við útboðsgögn og tilboð sem bárust í útboðinu. Bjóðendur telja að ekki hafi verið farið að lögum og reglum um útboð. Bjóðendur hafi allir lagt á sig mikla vinnu við tilboðsgerð í því skyni að skila Veiðifélaginu og landeigendum sem bestri niðurstöðu og ber framkoma stjórnar vott um algert skeytingarleysi gagnvart bjóðendum. Slík vinnubrögð eru forkastanleg og á engan hátt til þess fallin að auka trúverðugleika á niðurstöður útboða veiðifélaga á Íslandi til framtíðar,“ segir orðrétt í yfirlýsingunni.

Undir yfirlýsinguna rita sex aðilar sem allir skiluðu inn tilboði í veiðiréttinn. Fish Partner, óstofnað félag á vegum Gunnars Norðdahl, félagið I am Iceland, Kristinn Ingólfsson og Guðmundur Atli, sem buðu í vesturbakka Hólsár, Veiðifélagið Hreggnasi og West Ranga Property Group Ltd.

Yfirlýsingin var send á stjórn Veiðifélags Ytri-Rangár og einnig til Landssambands veiðifélaga. Sporðaköst náðu tali af Ara Árnasyni, framkvæmdastjóra Veiðifélagsins, og vildi hann ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert