Þegar sólin sigrar frostið skapast oft kjör aðstæður í vorveiðinni. Þetta upplifðu þeir Sigþór Steinn Ólafsson og Birkir Mar Harðarson í Eldvatninu í dag. Þegar þeir félagar komu út í morgun var fjögurra gráðu frost, en nánast logn. Sólin náði að hita landið og ána aðeins og það var ekki að sökum að spyrja.
„Ég byrjaði á að setja í þennan svakalega birting upp á níutíu sentímetra,“ sagði Sigþór í samtali við Sporðaköst.
Hann er bara í þokkalegum holdum.
„Þokkalegum? Hann er bara eins og nýgenginn. Þetta er bara fáránlegt. Við fengum einn í frostinu í morgun en svo fór sólin að skína og aðeins að mylja úr. Við erum bara búnir að vera í mokveiði.“
Hvað kallar þú mokveiði?
„Við erum búnir að landa átta og missa fjóra. Við erum bara tveir að dóla okkur hér með eina stöng og allt tekið á litlar púpur. Mest hefur þetta verið á Blue Magic Pheasant Tail, eins og við köllum hana.“
Þeir félagar voru búnir að fá fiska á öllum stöðum sem þeir höfðu kastað á og allt voru þetta stórir fiskar. Hvaða staðir eru þetta?
„Villi, Símastrengur, Skarfatangi og Hundavað. Það er frost og við förum rólega yfir. Við erum í svona hægum takti, eins og Jón Baldvin myndi kalla það.“
Sigþór er með vinsælt hlaðvarp um veiði sem kallast Hylurinn. Hann þekkir Eldvatnið vel og þeir félagar hafa gert góða hluti í dag þrátt fyrir erfiðar aðstæður framan af degi. Þeir félagar áttu magnaða stund í Villa. Fyrst landaði Sigþór níutíu sentímetra fiski eins og fyrr segir og í næsta kasti setti Birkir í 86 sentímetra fisk og það á sömu flugu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |