Þeir félagar Steingrímur Sævarr Ólafsson og Birkir Björnsson hófu veiðar í Varmá í morgun. Neðsti hluti árinnar var þá frosinn og nokkurt ísrek ofar. Eftir nokkur köst fraus í lykkjum. „Ég var í fimm lögum af flíkum að ofan til að byrja með,“ sagði Steingrímur í samtali við Sporðaköst nú síðdegis.
Upp úr klukkan ellefu í morgun var farið að hlýna verulega og hætti að frjósa í lykkjum og ísrekið hætti, en þó nokkur snjór er á svæðinu. „Við erum komnir niður í þrjú lög og fiskur er farinn að hreyfa sig,“ upplýsti Steingrímur. Þeir félagar voru búnir að setja í fjóra fiska og landa tveimur, en missa tvo.
Birtingurinn var bæði að taka straumflugur og púpur. Gulur Nobbler gaf fisk og einnig Pheasant Tail. Birkir landaði 55 sentimetra birtingi og þeir höfðu séð töluvert af fiski.
„Þetta er sennilega besti dagurinn veðurlega séð í langan tíma, en greinilegt að frostið hefur verið mikið hér í nótt þar sem Varmáin var frosin neðst.“ Það þarf nokkuð til þar sem Varmá er alla jafna frekar hlý eða um átta gráður.
Þeir félagarnir hugsuðu sér gott til glóðarinnar þar sem komið var „þriggja laga veður“ og fiskurinn farinn að taka.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |