Sjóbirtingsveiði er hafin í Laxá í Kjós. Í hlýindum gærdagsins gerðu nokkrar stangir hörkuveiði. Samtals var 26 birtingum landað og það á hefðbundnum stöðum eins og Káranesfljóti, Álabökkum, Mosabreiðu og Baulunesfljóti.
Einn þeirra sem var við veiðar í gær var Aron Sigurþórsson ásamt félaga sínum, Einari Hermannssyni. Þeir lönduðu níu birtingum á stöngina. Eins og oft er á þessum tíma voru fiskarnir í misjöfnu holdafari. Allt frá því að vera í góðum holdum yfir í það að vera skemmra á veg komnir.
„Stærsti sem við lönduðum var 79 sentimetrar. Þessir fiskar voru bæði að taka straumflugur og púpur. Við vorum að fá á Black Ghost og Dýrbít. Í púpunum vorum við með Pheasant Tail, Squirmy og púpur sem ég hef hnýtt og heita svo sem ekkert,“ sagði Aron í samtali við Sporðaköst.
Laxá í Kjós er ein af þeim ám þar sem sjóbirtingurinn hefur verið að taka hressilega við sér og veiðistaðirnir sem nefndir eru hér að ofan eru klassískir sjóbirtingsstaðir í Laxá.
Nýr leigutaki hefur tekið við Laxá í Kjós en það er Haraldur Eiríksson. Áður var Hreggnasi ehf. með Kjósina á leigu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |