Lopavafin veiðiævintýri í Skagafirði

Baldur Buðmundsson bréfritari með flottan birting úr Húseyjarkvísl.
Baldur Buðmundsson bréfritari með flottan birting úr Húseyjarkvísl. Ljósmynd/ROS

Vorveiðin er mikið happdrætti, bæði hvað varðar veður og leysingar. Þeir sem eru heppnir og hitta á réttu aðstæðurnar gera oft fantaveiði á þessum tíma. Þriggja daga holl í Húseyjarkvísl landaði níutíu fiskum. Við fengum bréf frá Baldri Guðmundssyni, leiðsögumanni og lífskúnstner, sem var í þessu vel heppnaða holli. 

Bréf frá Baldri

„Hefur þér dottið til hugar að nota Squirmy líka sem dropper?“ spurði glottandi Mosfellingur mig í háðungarskyni eftir fyrstu vaktina í vorveiði í Húseyjarkvísl í liðinni viku. Mér hafði gengið allt í haginn á vaktinni og landað átta fiskum – þar af fjórum á bilinu 65 til 73 sentímetrar. Þannig háttaði til að sex þessara fiska tóku hið skæða ánamaðkalíki Squirmy worm en aðeins tveir féllu fyrir samhangandi silungapúpu.

Ásgeir Jónsson með 64 sentímetra langan og einstaklega vel haldinn …
Ásgeir Jónsson með 64 sentímetra langan og einstaklega vel haldinn sjóbirting. Ummálið mældist 38 sentímetrar. Þessi náðist í Immubakka. Ljósmynd/Baldur

Squirmy worm þykir ekki merkilegt agn hjá stórum hópi veiðimanna en sjálfur er ég á þeim stað í veiðinni að mér finnst bara gaman að fá fisk. Ormurinn er því framarlega í fluguboxinu á þessum árstíma. Ég veiddi andstreymis allan túrinn en aðrir í hollinu veðjuðu á straumflugur í öllum regnbogans litum. Og þeir veiddu líka vel.

Eftir góða opnun hafði áin verið ísilögð dagana fyrir túrinn. Raunar spáði slíkum brunagaddi í aðdraganda okkar veiðidaga að tvær lopapeysur, lopavettlingar og lopasokkar fylgdu mér í túrinn – auk svolítillar brjóstbirtu. Væntingarnar voru satt að segja mjög hófstilltar.

Robert Orri Skúlason með einn af mörgum úr kvíslinni, en …
Robert Orri Skúlason með einn af mörgum úr kvíslinni, en þeir félagar hittu á frábærar aðstæður. Ljósmynd/Baldur

Um síðustu helgi hlýnaði snögglega og ísa tók að leysa. Á fyrstu vaktinni, sem var á mánudeginum, var áin nokkuð skoluð og takan góð. Flestir veiddu vel, sama hvaða vopnum þeir beittu. Fiskar komu á land út um alla á. Black ghost í ýmsum útfærslum, Fishskull-straumflugur af öllum regnbogans litum og „ánamaðkurinn“ minn fagri gáfu hvað best.

Daginn eftir hafði kólnað að nýju, áin hreinsað sig og takan varð tregari fyrir vikið. Lopinn kom sér vel, ekki síst þegar maður beið þess að veiðifélaginn lyki sér af, en við Robert Orri Skúlason deildum stöng í túrnum. Það er nefnilega svolítið snúið að kasta flugu í lopavettlingum.

Þessi er ofurlítið kuldaleg, en hann er á. Það er …
Þessi er ofurlítið kuldaleg, en hann er á. Það er það sem skiptir máli. Ljósmynd/ROS

Aftur hlýnaði svolítið á öðrum heila deginum en ekki má með góðri samvisku segja annað en að veðurguðirnir hafi séð okkur fyrir þremur góðum dögum í Skagafirði.

Samtals komu um 90 fiskar á land á stangirnar þrjár, þessa þrjá daga. Þar af voru 17 birtingar á bilinu 65 til 77 sentímetrar auk þess sem 87 sentímetra niðurgöngulax var dreginn á land við Immubakka. Heilt yfir var fiskurinn vel haldinn.

Þetta var í þriðja sinn sem ég kem í Húseyjarkvísl. Það er auðvelt að taka ástfóstri við sjóbirtinginn í kvíslinni og þessi fyrsta vakt minnti mann rækilega á ástæður þess. Þegar maður flokkar 58 sentímetra staðbundinn urriða sem „smælki“ er maður sennilega ansi góðu vanur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert