Þröstur Elliðason hefur framlengt samning sinn við Veiðifélag Jöklu um fimm ár. Samningurinn nær nú til ársins 2031. Fyrirhugaðar eru miklar sleppingar í hliðarár Jöklu sem varnarviðbrögð við yfirfalli úr Hálslóni, sem Jökla kemur úr.
Þröstur Elliðason upplýsti í samtali við Sporðaköst að fyrirhugað væri að stórauka gönguseiðasleppingar í Jöklu og hliðarár. Um er að ræða Kaldá, Laxá og Fögruhlíðará.
„Við erum að gera þetta til að vera minna háð yfirfallinu og stendur til að stórauka gönguseiðasleppingar. Við vonumst til þess að veiðin haldist áfram góð þó að yfirfall komi.
Að jafnaði hafa veiðst hundrað til tvö hundruð laxar úr hliðarám en til stendur að stórauka veiði þar á næstu árum. Áfram verður þó sleppt smáseiðum og ársgömlum seiðum í Jöklu sjálfa enda uppeldisskilyrði góð upp allan Jökuldalinn.“
Gríðarleg vinna og kostnaður hefur farið í að byggja Jöklu upp sem laxveiðiá og er búið að sleppa frá 2007 um 1,4 milljónum seiða.
„Við gerð fiskvegar í Steinboganum 2012 opnaðist líklega lengsta fiskgenga svæði landsins en ekki er alveg ljóst hvort lax gangi alla leið, hátt í 120 km að Kárahnjúkum, en alla vega er staðfest að lax hefur fundist áttatíu kílómetra frá sjó. Óttast var að yfirfall hefði mjög slæm áhrif á seiðabúskap árinnar en nú er ljóst að svo er ekki enda stendur það bara yfir í stuttan tíma síðla sumars og hverfur í októberbyrjun, eða áður en hrygning hefst. Náttúrulegi stofn árinnar er að aukast og eitt stærsta uppeldissvæði landsins á laxi og jafnvel í Evrópu er að koma inn ef fram fer sem horfir,“ segir Þröstur og auðheyrt er á honum að hann er bjartsýnn á að fleiri metár í veiðinni séu fram undan. Jökla gaf 870 laxa í fyrra og er það metveiði á svæðinu frá því uppbyggingin hófst.
Samstarfið við veiðifélagið er mjög gott og endurspeglar framlenging samnings um fimm ár það. Öll aðkoma að gerð slóða hefur verið til fyrirmyndar og aðstoð við seiðasleppingar líka.“
Jökla hefur verið seld í þremur svæðum, Jökla I, II og III, en mjög lítil nýting hefur verið sérstaklega á efri svæðunum, segir Þröstur. Og það þrátt fyrir að mikið af laxi hafi verið að ganga á Jöklu II.
„Stöðugt nýir veiðistaðir finnast á öllum svæðum árlega en okkur vantar nýtingu og reynslu á þá. Einnig hefur rekstur veiðihússins Hálsakots verið erfiður með fáar stangir og því er stefnt að í kjölfar nýs langtímasamnings að Strengir sem eigandi þess stækki gistiaðstöðuna. Öll Jökla verði í framhaldinu sett í eina róteringu með 8-12 stangir árið 2022 og jafnframt tryggir það veiðireynslu á stöðum sem lítið hafa verið reyndir. Ekki vantar plássið,“ hlær Þröstur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |