Undanfarin ár hafa Sporðaköst tekið stöðuna á heildarlaxveiði hjá Tóta tönn og Árna Baldurssyni. Tóti eða Þórarinn Sigþórsson tannlæknir tók því ljúflega að líta á almanakið þar sem hann skrifar niður fjölda laxa.
„Já ég kíkti á þetta fyrir þig. Talan í dag er 20.980 laxar,“ segir hann og er ekkert sérlega ánægður. Þetta er ekkert að ganga núna,“ segir hann.
Nokkru áður höfðu Sporðaköst rætt við Árna Baldursson og tala hjá honum er núna 18.618 laxar. Tóti er sem sagt með 2.362 laxa í forskot á Árna.
Fyrst þegar þessi samanburður var gerður hér á síðunni, árið 2019 þá var munurinn 3.930 laxar. Tóti með 20.686 laxa og Árni Baldursson með 16.756.
Tóti er búinn að bóka mikið í sumar. Tvær eða þrjár ferðir í Kjarrá, Þjórsá er á dagskránni. „Ég ætla að slappa vel af í sumar og er hættur að taka við nýjum sjúklingum. Ég fer víðar. Ætla í Jöklu, Blöndu, Breiðdalsá og Eystri-Rangá.“
Það er þá ljóst að þú ert að fara yfir 21 laxa í sumar. Vantar bara tuttugu fiska í það?
„Já. Ég tel það líklegt. Nema ég verði bráðkvaddur,“ hlær hann.
Hvernig líst þér á sumarið Tóti?
„Sko, ég held að ef ég færi að tjá mig um það þá yrði það sama vitleysa og frá öllum öðrum. Það veit enginn neitt í sinn haus í þessu. Sjáðu bara síðasta sumar. Það átti að vera metveiði. Allir fræðimenn og veiðimenn voru að spá metsumri. Það er bara ekki á vísan að róa í þessu.“
Hann segir að allir spádómar séu út í bláinn, en að veiðimenn voni alltaf það besta.
„Ég get þó spáð því að þetta verður andskotakornið ekki verra en í fyrra. Þessi spádómur gæti alveg ræst.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |