Lítur skelfilega út – svipað og 1977

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir nýliðinn vetur þann úrkomuminnsta frá vetrinum …
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir nýliðinn vetur þann úrkomuminnsta frá vetrinum 1976-77. Ofan á það bætast þurrkar og engin breyting í langtímaspá. Úrkomuleysi.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Veðurvaktinni sem rekur vefsíðuna Blika.is, skilur vel að veiðimenn hafi áhyggjur af vatnsbúskap. Sporðaköst höfðu samband við þennan reynslubolta í veðurfræðum, vegna þess úrkomuleysis sem hefur verið á Íslandi í vetur og vor.

Fyrsta spurning Einars á móti var: „Veistu hvert rennslið er í Norðurá?“ Já, það er um sjö rúmmetrar. 

„Vorvatn þar á að vera fimmtán rúmmetrar. Þetta lítur eiginlega bara skelfilega út. Bæði hefur verið mjög lítil úrkoma það sem af er ári og þegar horft er til Vesturlands og Suðvesturlands þá þarf að fara aftur til vetrarins 1976-77 til að finna sambærilega stöðu. Reyndar varð rigningasumar eftir þurra vorið 1977. En á þessu svæði eru ekki miklar snjófyrningar sem gætu komið fram í auknu rennsli. Svo eru spárnar ansi eindregnar í þá veru að við erum áfram í sömu stöðu. Við búum við svalt og þurrt heimskautaloft og það er ekkert í kortunum til að breyta þeirri stöðu. Við sjáum ekki neitt sem er að fara að breyta þessu, að heitara loft eigi möguleika á að komast að landinu. Ég tala nú ekki um yfir landið. Þegar við erum að tala um mildara loft þá er það yfirleitt líka rakara. Þannig að þetta lítur bara alls ekki vel út. Svörðurinn er líka orðinn svo þurr,“ segir Einar Sveinbjörnsson.

Kjarrá í Borgarfirði þurrkasumarið mikla 2019. Því miður eru blikur …
Kjarrá í Borgarfirði þurrkasumarið mikla 2019. Því miður eru blikur á lofti með vatnsbúskap og allt útlit fyrir mikinn vatnsskort í mörgum laxveiðiám, snemma veiðitíma. Sigurjón Ragnar

Við höfum áður heyrt frá leigutaka Laxár í Kjós og umsjónaraðila Norðurár að menn hafa áhyggjur. Vissulega er enn nokkuð í opnanir á þessum ám, en útlitið eins og Einar segir er ekki til þess að auka mönnum bjartsýni.

Erum við að horfa á stöðu sem er jafnvel verri en þurrkasumarið mikla 2019?

„Árið 2019 var dálítið öðruvísi þar sem það var vissulega mánaðartími þar sem kom varla deigur dropi úr lofti en sá tími byrjaði eftir 20. maí og ég held að flestar ár hafi opnað með sæmilegu vatni. Leysingin var reyndar snemma þá. En nú er vorið sérlega þurrt eftir snjóléttan vetur um vestan- og norðvestanvert landið og reyndar víða annars staðar. Það er helst á Austurlandi þar sem allt er með eðlilegum hætti hvað úrkomu varðar.“

Einar tekur fram, með tilliti til laxveiði, að það sé ekki öll nótt úti enn, það geti komið rigningar eftir að þeim spátíma sem nú má sjá lýkur. Einar minnir líka á að fræðin segi eitt og svo geti komið óvæntar breytingar. Þannig nefnir hann að hiti í Evrópu hafi snögglega risið í kjölfar bylgju frá Spáni í gær. Hins vegar má alveg heyra á honum að hann er hóflega bjartsýnn hvað Ísland varðar. 

En miðað við snjóléttan vetur og afar þurrt vor, ásamt spám sem gefa ekki tilefni til breytinga eins langt og augað eygir, er staðan ekki glæsileg.

Einar tekur undir þetta og ítrekar að í ljósi þeirra þurrka sem hafa verið undanfarið þurfi drjúgt vatnsmagn til að leiðrétta þessa stöðu. Það má heyra á Einari að hann er áhyggjufullur en eins og hann segir sjálfur: „Það er ekki öll nótt úti enn. Við gætum alveg fengið rigningasumar og það er svo merkilegt að oft eftir langa þurrka eða rigningakafla þá snýst þetta við og ársmeðaltalið er býsna sambærilegt milli ára,“ segir Einar Sveinbjörnsson.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert