Eitt mest spennandi veiðisvæði sumarsins er án efa Laxá í Aðaldal. Þar verða gerðar umfangsmiklar breytingar. Stöngum er fækkað í tólf talsins og áin öll fer í sameiginlega skiptingu fyrir utan jarðirnar Jarlsstaði og Árbót.
Fara þarf aftur til ársins 1960 til að finna sambærilega skiptingu, því eftir það fór hluti af Nessvæðinu í sérskiptingu. Nú veiða veiðimenn Laxá frá Laxhólma, ofan Óseyrar og niður á Hyl fyrir neðan Æðarfossa.
„Já þetta er mjög spennandi. Á sama tíma er þetta líka mikil áskorun, að reka tvö veiðihús og einhvern veginn að reyna að vera alls staðar og meiri yfirferð og allt það. En ég held að verði miklu skemmtilegra að bæði veiða og leiðseigja. Menn eru að fara yfir svo miklu meira vatn og möguleikar á hverju svæði eru svo margir. Þetta sumar er svona prufa og það verður gaman að sjá hverju þetta breytir,“ sagði Árni Pétur Hilmarsson í samtali við Sporðaköst.
Eitt af því sem Árni Pétur bendir á, er að þetta geti einfaldlega leitt til meiri veiði. Stórir staðir sem aldrei fá hvíld allt sumarið, munu nú af og til fá frið. „Þetta eru einfaldlega svo margir staðir sem um er að velja að veiðimenn komast aldrei yfir alla veiðistaði á vaktinni. Þá eru þessir lykilstaðir af og til hvíldir og það eykur líkur þeirra sem á eftir koma.“
Ánni verður skipt í sex tveggja stanga svæði og því ljóst að menn hafa mikið vatn að veiða. En það er fleira sem vekur athygli. Bæði veiðihúsin, Vökuholt og húsið í Nesi verða rekin samhliða í sumar.
„Við erum að leggja mikið á okkur til að tryggja gæði í þjónustu og viðhalda því að hópar geti átt sömu möguleika og voru áður. Við vorum ekki tilbúnir að gera bara Vökuholt að tólf stanga hóteli, þó að þar séu tólf herbergi og pláss fyrir alla. Stærsti hluti okkar viðskiptavina eru vinahópar sem hafa haldið tryggð við okkur lengi og það eru hópar sem vilja geta verið út af fyrir sig. Þetta er meiri kostnaður fyrir okkur, en við teljum þetta einu réttu leiðina til að geta haldið áfram að selja þessu einstöku lífsreynslu að veiða Laxá og vera prívat.“
Ef um er að ræða tvískiptan hóp, sem nýtir bæði veiðihúsin geta veiðimenn samt séð hvað er gerast hjá hinum stöngunum. Laxá gerist aðili að Angling iQ, rafrænu veiðibókinni. iPad verður í báðum húsum og veiði skráð samdægurs þannig að hægt verður að sjá hvað er að gerast í allri ánni.
Eitt af því sem hefur verið áhyggjuefni í Laxá í Aðaldal eins og víða annars staðar er minnkandi veiði. Árni Pétur bendir þó á að meðaltal síðustu tíu ára fyrir Laxá er um 900 fiskar. Og eins og hann bendir á, ef við erum að ná um þúsund laxa veiði á tólf stangir þá er það eitthvað sem menn yrðu mjög sáttir við.
„Við sjáum líka þann kost að hvenær sumars sem menn koma þá er alltaf eitthvað svæði inni og stundum fleiri. Menn fara alla ána á sex vöktum. Auðvitað færist veiðin til og margir hafa á því skoðanir að við eigum að breyta svæðum eftir því sem líður á veiðitímann. Við erum líka að læra og það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig þessu vindur fram. Ef við sjáum skynsemina í því þá munum við gera það eftir þetta sumar.“
Er byrjað að vora. „Nei, það er ekki þannig. Það snjóar hér annan hvern dag, en það á nú eitthvað að hlýna um helgina. Vonum að það gangi eftir.“
Enn er góður tími til stefnu því Laxá í Aðaldal opnar 20. júní og þá verður komið sumar fyrir norðan, allavega vor.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |