Sprenging í áhuga á veiðileyfum

Jóhann með fallegan vorfisk úr Blöndu.
Jóhann með fallegan vorfisk úr Blöndu. Ljósmynd/Aðsend

Veiðileyfasalar standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum þessa dagana. Við höfum síðustu daga heyrt í nokkrum sem eru að reka laxveiðiár. Nú er komið að Kolskeggi sem er nýlegt félag, en annast sölu veiðileyfa í Eystri-Rangá, austurbakka Hólsár, Affallið og Þverá í Fljótshlíð. Maðurinn sem heldur um alla þræði í þessum ám er Jóhann Davíð Smárason.

Með Matthíasi Kára syni sínum er Jóhann að kljást við …
Með Matthíasi Kára syni sínum er Jóhann að kljást við flottan lax í Eystri. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist vonast eftir góðri veiði á þeim vatnasvæðum sem Kolskeggur er með á leigu. „Ég á ekkert endilega von á að hún verði jafn svakaleg og síðasta sumar. Við vorum með níu þúsund laxa í Eystri í fyrra. Allt umfram fimm þúsund í sumar væri flott veiði. Ef við horfum á Eystri, sem er okkar flaggskip þá er nánast allt selt. Við erum 90 prósent seldir en erum náttúrulega í þeirri stöðu að við erum að færa mjög marga viðskiptavini milli ára vegna Covid í fyrra og það er kostnaðarsamt eins og margir veiðileyfasalar eru að upplifa. Þannig að framboðið okkar í ár var mjög skert vegna þessa.“

Jói með vorbirting úr Hólsá. Þar er nú búið að …
Jói með vorbirting úr Hólsá. Þar er nú búið að setja sleppiskyldu á allan birting. Ljósmynd/Kolskeggur

Jóhann segir að margar fyrirspurnir berist þessar vikurnar, en þá er nánast allt uppselt og útlendingar grípa í tómt. „Ég held að þetta eigi bara eftir að aukast og það er mín tilfinning að það eigi eftir að verða alger sprenging í eftirspurn veiðileyfa og ferðamennsku á Íslandi almennt, þegar líður fram á sumar. Um leið og við Íslendingar erum komnir með almennilega vörn í gegnum bólusetningar á ég von á að það verði hér alger sprenging á öllum sviðum ferðaþjónustu. Það eru svo margir orðnir ferðaþyrstir og veiðiþyrstir að menn eru ólmir að komast.“

Hann segir nánast allt uppselt. „Austurbakki Hólsár er seldur frá 1. júní til 18. september. Affallið er uppselt. Þverá í Fljótshlíð, þar eru fimm holl eftir í október. Það er bara sviðin jörð þegar kemur að framboði hjá okkur á veiðileyfum,“ segir Jóhann í samtali við Sporðaköst.

Með bjartan lax úr Eystri. Hann á ekki von á …
Með bjartan lax úr Eystri. Hann á ekki von á jafn svakalegri veiði og í fyrra, en vonast eftir góðri veiði engu að síður. Ljósmynd/Kolskeggur

Verulegar breytingar hafa verið gerðar á veiðihúsinu við Hólsá og búið að uppfæra það mikið. Merkingar hafa verið bættar og til stendur að tvöfalda sleppingar seiða á svæðinu. „Þær koma náttúrulega ekki inn í veiði fyrr en á næsta ári en við erum að tvöfalda sleppingar á svæðinu í þeim tilgangi að halda laxinum meira á svæðinu. Við tvöfölduðum sleppingar í Hólsá í sumar. Fórum úr fjörutíu þúsund seiðum í áttatíu þúsund. Okkar sýn á þetta er að auka laxgengd í Hólsána sjálfa svo svæðið gefi jafnari veiði fram á haustið.“

Sleppiskylda er komin á allan sjóbirting í Hólsá og segir Jóhann það einfaldlega vegna þess að gengið hafi verið of nærri stofninum og veiðin hafi farið minnkandi. „Hér áður fyrr var þetta eitt besta sjóbirtingssvæði á landinu og við viljum endurvekja það.“

Veiðihúsið við Hólsá var tekið í gegn í vetur og …
Veiðihúsið við Hólsá var tekið í gegn í vetur og búið er að merkja ána upp á nýtt. Seiðasleppingar verða tvöfaldaðar í sumar og mun það skila sér í veiðina 2022. Ljósmynd/Kolskeggur

Þegar kemur að kvóta sem heimilt er að taka þá gildir sama regla á öllum svæðum Kolskeggs. Hirða má fjóra smálaxa, undir sjötíu sentimetrum á vakt, eða átta á einum degi. Gildir þá einu hvort menn er að veiða Affallið, Þverá, Hólsá eða Eystri.

Agn í þessum vatnsföllum er þannig að í Affallinu er bara fluga leyfð til 1. september, eftir það er maðkur leyfður líka. Í Þverá er heimilt að veiða á bæði maðk og flugu allt tímabilið. Í Hólsá er staðan óbreytt. Þar má veiða á flugu, maðk og spún eins og verið hefur. Í Eystri-Rangá er bara veitt á flugu til 1. september og eftir það er maðkur líka leyfður.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert