Hólmfríður Jónsdóttir frá Arnarvatni í Mývatnssveit tekur á ný við keflinu sem staðarhaldari í veiðihúsinu Hofi við Laxá. Hólmfríður sá um langa hríð um veiðihúsið, en hætti árið 2008. Nú þrettán árum síðar snýr hún aftur.
Þegar Sporðaköst hringdu í Hólmfríði og óskuðu henni til hamingju með að vera að mæta til leiks á ný fékk hún langt hláturkast. Og það var býsna smitandi. „Mér finnst þetta drepfyndið,“ hló hún.
Þegar fyrstu veiðimenn koma í urriðaparadísina í Mývatnssveit á föstudag mun Hólmfríður taka á móti hollinu. „Jú, þetta er rétt. Ég er að koma aftur. Mér bara leiddist og þetta er mjög spennandi,“ sagði Hólmfríður, eða Hódda eins og hún er oft kölluð. Hún skellti enn upp úr.
Hólmfríður var nánast innanstokksmunur í Hofi og hafði verið afar lengi. Hún hóf veiðieftirlit og sölu á veiðileyfum 1973. Það var svo árið 1996 að hún tók við veiðihúsinu Hofi og rak það fram til ársins 2008.
Kolbeinn Grímsson hnýtti á sínum tíma flugu sem hann skírði í höfuðið á henni og hún heitir einfaldlega Hólmfríður. Það væri nú lag að nota þessa fallegu straumflugu í fyrstu túrunum henni til heiðurs.
„Það hlýtur að vera komin ný kynslóð veiðimanna. Þetta hefur samt fylgt mér öll þessi ár því þetta er svo stór hluti af mínu lífi. Ég vona að þetta gangi bara vel.“
Hún heldur að slóðar séu í lagi þó að vorið hafi komið frekar seint. Sagðist reyndar ekki hafa kíkt niður á Brettingsstaði en taldi að slóðinn væri í lagi þar sem vetur var mjög snjóléttur.
En hefurðu fylgst með veiðinni eftir að þú hættir?
„Já. Ég hef gert það og tek eftir að það hefur orðið nokkuð mikil breyting á hvar menn veiða, eftir að ég hætti. Ég held að það geti verið að fólk geri minna af því að labba á þá staði þar sem lengst er að fara. Til dæmis Vörðuflóinn er ekki að gefa nærri eins mikið og hann gerði áður. Arnarvatnssvæðið og Geldingaey eru svo að gefa miklu meiri veiði.“
Mörgum veiðimönnum sem hafa stundað þetta svæði þykir afar vænt um að fá Hólmfríði aftur. Sporðaköst bjóða hana velkomna á nýjan leik.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |