Ævintýri á ósasvæði Laxár

Sjóbleikja af bestu gerð. Atli Bergmann segir að bleikjan hafi …
Sjóbleikja af bestu gerð. Atli Bergmann segir að bleikjan hafi verið full af sandsíli og marfló. Það veit á gott að það sé síli. Ljósmynd/AB

Sjóbleikjur, sjóbirtingur, óséður stórfiskur, krían, tófan og selurinn settu upp mikið sjónarspil fyrir Atla Bergmann og félaga þegar þeir veiddu ósasvæði Laxár á Ásum síðustu daga. „Það var mikið fyrir þessu haft en svo gaf hún sig og þetta var hreint út sagt stórkostlegt,“ sagði Atli Bergmann í samtali við Sporðaköst.

Hann hefur veitt þetta svæði í nokkur ár og segir að það hafi verið gaman að sjá hvað bæði bleikjan og sjóbirtingurinn hafi verið vel haldin. Bleikjan var stútfull af bæði sandsíli og marfló.

„Það eru frábærar fréttir að það sé síli og þá er bleikjan líka svo falleg.“

Sannkölluð kusa. Það er vandfundinn betri matfiskur en silfurgjláandi sjóbleikja.
Sannkölluð kusa. Það er vandfundinn betri matfiskur en silfurgjláandi sjóbleikja. Ljósmynd/AB

Laxá á Ásum og Vatnsdalsá falla saman til sjávar síðasta spölinn. Vatnsdalsáin var mjög vatnsmikil og gruggug á með Laxá var tær, þannig að það mynduðust afgerandi skil og þar var mest af bleikjunni að finna.

„Við fundum hana með straumflugum. Vorum að kasta Black Ghost og ýmsu klassísku. Þegar við settum í hana þá vorum við líka búnir að staðsetja hana og þá tók við tæknilegri veiði. Andstreymis og með púpur og tökuvara. Við vorum að fá á þessar hefðbundnu púpur, eins og Pheasant Tail og gjarnan blóðorm sem dropper.“

Komið nóg fyrir ættarmótið í sumar. Atli mun þar bjóða …
Komið nóg fyrir ættarmótið í sumar. Atli mun þar bjóða upp á bleikju fyrir alla sem mæta. Ljósmynd/AB

Atli segir að þetta hafi verið erfitt með köflum, en svo kom góða veðrið í morgun og þá lentu þeir í flottri veiði. „Ég veiddi í tvo tíma í morgun og var þá orðinn veiðisaddur. Tók nokkrar bleikjur til að elda á ættarmóti í sumar þar sem Bergmann ættin kemur saman. Þetta er náttúrulega besti matur sem hægt er að fá, spikfeit sjóbleikja. Það finnst öllum þetta mjög ánægjulegt og ég er kominn með nóg fyrir alla. Ég hef það þannig að þegar er komið nóg þá sleppir maður restinni.“

Þeir félagar fengu líka nokkra birtinga. Mest var það geldfiskur en líka upp í rúma sjötíu sentímetra. „Við höfum stundum fengið snemmgengna stórlaxa hér á þessum tíma. Ég setti í fisk sem ég réði aldrei við og sá ekki. Hann sleit tíu punda tauminn af hreinu afli. Það gæti alveg hafa verið lax, en ég sá ekki þennan fisk.“

Eins og myndirnar bera með sér er bleikjan afar falleg. Fyrir þá sem eru hrifnir af fiskmeti eru þetta myndir sem framkalla aukna framleiðslu munnvatns. Það er ljóst það fer enginn svangur heim af ættarmótinu í sumar.

„Selurinn var svamlandi þarna, tófan var leitandi að æti og kríurnar gogguðu í hausinn á okkur. Þetta var allt eins og það átti að vera og mikil og sterk náttúruupplifun.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert