„Þetta tók ekki langan tíma. Hann tók eftir fimm sekúndur,“ sagði Stefán Sigurðsson, lukkulegur eftir að hafa landað fyrsta laxi sumarsins í morgun, 77 cm, þykkum nýrenningi við Urriðafoss í Þjórsá.
Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters er leigutaki svæðisins við Urriðafoss, hann renndi maðkinum út í strenginn á mínútunni klukkan átta og þremur mínútum síðar var laxinn í háfnum.
Harpa Hlín Þórðardóttir, sem einnig er leigutaki svæðisins, náði skömmu síðar 93 sentímetra hæng. Fisknum var sleppt að lokinni myndatöku.
„Ég náði ekki einu sinni að reima á mig skóna,“ sagði félagi hans sem háfaði laxinn.
„Þetta er geggjaður fiskur, spikfeitur og vel fram genginn,“ sagði Einar Haraldsson bóndi á Urriðafossi sem fylgdist kátur með. Einar spáir góðri veiði í sumar og stórlaxa-sumri.
Veitt er á tvær stangir á svæðinu sem Iceland Outfitters er með á leigu. Veiðin hófst klukkan átta eins og áður sagði og tók aðeins fimm sekúndur að fá fyrsta laxinn. Mikill hugur er í veiðimönnum enda mikið af fiski í ánni. Mikill beljandi er í Urriðafossi og hann vatnsmikill.
Stangveiði við Urriðafoss hófst sumarið 2017 og hefur frá fyrsta degi notið mikilla vinsælda. Hefur netum síðan verið fækkað við jarðir í ánni og veiðar á stöng teknar upp á sífellt fleiri svæðum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |