Dagur tvö í Urriðafossi. Fimmtán löxum var landað og margir misstir. Oft er það sem opnunardagur tekur hrollinn úr svæðum, en því var ekki að heilsa í Þjórsá í dag. Ingvar Stefánsson og félagar áttu frábæran dag. Ingvar hafði á orði við Sporðaköst að hann hefði aldrei áður séð svona þykka og þétta laxa eins og þeir voru að landa í dag. Er það í takt við það sem opnunarhollið var að upplifa.
„Þetta var reytingur allan daginn. Það komu hlé inn á milli en svo var eins og kæmu göngur inn. Reyndar var bara einn lax lúsugur en þeir voru allir glænýir. Hreisturlos var mikið og af þessum fimmtán voru fimm hængar. Lengdin var á bilinu 76 sentímetrar til 87 og voru hængarnir stærstir,“ sagði Ingvar á heimleið eftir flottan veiðidag í Urriðafossi.
Þeir félagar misstu marga fiska og það var alltaf eitthvað að gerast. „Ég hafði á tilfinningunni að það væri ekki neitt rosalega mikið af fiski, en eins og ég heyrði frá Stefáni leigutaka í gær, þá voru alltaf að koma inn fiskar.“
Þeir félagar tóku kvótann og var allur fiskurinn veiddur á maðk, eins og algengast er í Urriðafossi. Þeir voru býsna ánægðir með lífið og tilveruna á heimleið í samtali við Sporðaköst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |