Helga Kristín Tryggvadóttir er nýr sölu- og markaðsstjóri hjá Veiðiklúbbnum Streng. Hún tekur formlega við starfinu um næstu mánaðamót og leysir þá af hólmi Ingólf Helgason sem er að færa sig yfir á annan vettvang.
Sporðköst hittu nýja sölu- og markaðsstjórann á skrifstofu Strengs nú seinnipartinn. „Þetta var mjög stuttur aðdragandi að þessu,“ upplýsti Helga Kristín. Hún heyrði fyrst í Gísla Ásgeirssyni fyrir tíu dögum síðan og hlutirnir gengu hratt fyrir sig. „Ég er bara að byrja um mánaðamótin.“ Brosið leyndi sér ekki og það er ljóst að hún er spennt fyrir nýju starfi.
Lesendur Sporðakasta hér á mbl.is ættu margir hverjir að kannast við Helgu Kristínu. Hún var veiðimaður vikunnar fyrir skemmstu og talaði þar um sinn mikla veiðiáhuga og nefndi sem dæmi að í fyrra ók hún þrjá hringi umhverfis Ísland og veiddi á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum. Eitt af því sem hún nefndi í því viðtali var að veiðiheimurinn á Íslandi væri að stórum hluta heimur miðaldra karla. Hún hlær þegar hún er minnt á þau ummæli. „Það er rétt, en ég held að það sé bara góð hvatning fyrir ungt fólk og konur að sjá unga konu í þessari stöðu, þó að ég segi sjálf frá.“
Strengur rekur og á fjölmörg vatnasvæði í Vopnafirði og á Norðaustur landi. Selá og Hofsá er flaggskipin, en Miðfjarðará fyrir austan, Vesturdalsá, Sunnudalsá og hluti Hafralónsár eru einnig í pakkanum. Helga Kristín hefur veitt í Hofsá og var heilluð af henni. „Auðvitað þarf maður að veiða hinar sem fyrst, svo maður viti hvað maður er að selja,“ glottir hún.
Gísli, þetta er ráðning sem kemur skemmtilega á óvart.
„Það er klárlega bónus að hún er kona og það ung kona, en fyrst og síðast er hún hæf í starfið og ég ætla ekki að líta á þetta sem kynbundið hlutverk. Ef það er eitthvað sem okkur vantar í þessa grein þá er það ungt fólk,“ sagði Gísli Ásgeirsson. Hann benti á að Veiðiklúbburinn Strengur væri nú með tvær konur sem starfsmenn. Helga Kristín en einnig er Hjördís Elma Jóhannsdóttir komin til starfa sem bókari hjá félaginu.
Helga Kristín er í stjórn FUSS, sem er félag ungra í skot- og stangveiði. Þar hefur hún ásamt félögum sínum verið að hvetja ungt veiðifólk og sérstaklega ungar konur til þess að mæta í veiði og læra og búa til félagsskap.
Foreldrar Helgu eru mikið veiðiáhugafólk, þau Eyrún og Tryggvi. „Pabbi var alveg sérstaklega ánægður með þetta, þegar hann heyrði hvað ég væri að fara að gera,“ hlær nýráðinn sölu- og markaðsstjóri Veiðiklúbbsins Strengs.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |