Grenlækur þurr á löngum kafla

Mynd sem Hafrannsóknastofnun birti með frétt af ástandinu í Grenlæk. …
Mynd sem Hafrannsóknastofnun birti með frétt af ástandinu í Grenlæk. Þessi mynd var tekin 3. júní og sýnir glögglega að það eina sem er eftir af læknum á löngum kafla eru þornandi pollar og ekki rennur á milli þeirra. Ljósmynd/Friðþjófur Árnason

Hafrannsóknastofnun sendi frá sér frétt í dag vegna alvarlegs ástands í Grenlæk, sem er ein af þekktustu sjóbirtingsám landsins. Lækurinn er nú þurr á ellefu kílómetra kafla. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist og ljóst að tjónið er mikið. Frétt Hafrannsóknastofnunar mál lesa í heild sinni hér að neðan. Rétt er að vekja athygli á því að viðtal við Guðna Guðbergsson um ástandið á þessari mögnuðu sjóbirtingsá, birtist hér á morgun.

Frétt Hafrannsóknastofnunar:

„Undir lok maímánaðar bárust Hafrannsóknastofnun fregnir af vatnsþurrð í Grenlæk í Landbroti. Við vettvangsskoðun á Grenlæk, 3. júní kom í ljós að efstu 11 km Grenlækjar á svæðinu ofan við Stórafoss eru þurrir. Þegar er ljóst að vatnalíf hefur orðið illa úti vegna vatnsþurrðarinnar nú, hafa þörungar, smádýr og fiskar drepist á öllu því svæði sem þornaði. Sérstaklega hefur sjóbirtingsstofninn orðið illa úti, þar sem nær öll seiði á svæðinu hafa drepist og þar með 2-3 seiðaárgangar. Síðar mun koma í ljós hve alvarlegur skaði hefur orðið á fullorðnum sjóbirtingum, en líkur eru til að hluti stærri fiska hafi náð að forða sér neðar í lækinn þar sem vatn er enn til staðar. Farvegur lækjarins var að mestu skraufaþurr og sást lítið sem ekkert vatn utan einstaka þornandi smápolla. Í stöku polli var að sjá lifandi fiska og ljóst að þeir eiga ekki langra lífdaga að vænta, taki vatn ekki fljótlega að renna að nýju.

Grenlækur er frjósamur lindarlækur með ríkulegu lífríki. Þar er einn stærsti sjóbirtingsstofn landsins og þar eru mjög verðmæt veiðihlunnindi. Vatnsbúskapur Grenlækjar er háður því að nægilegt vatn flæði úr Skaftá og út á Eldhraunið en ef svo er ekki þá á rennsli Grenlækjar til með að þrjóta. Rennslinu út á Eldhraun er stýrt. Á því svæði sem nú er á þurru eru ein helstu hrygningar- og uppeldissvæði sjóbirtings í læknum. Árið 2016 var sambærileg vatnsþurrð í Grenlæk en þá var hluti sjóbirtingsstofnsins gengin til sjávar og skilaði sér til baka síðsumars og um haustið til hrygningar eftir að vatn var aftur tekið að renna. Í Grenlæk er starfræktur fiskteljari sem mun svara þeirri spurningu hversu margir fiskar koma til með að skila sér og þar með hversu alvarlegt ástand stofnsins er.

Finna þarf leiðir sem til frambúðar tryggja háa grunnvatnsstöðu í hraunum á svæðinu svo vatnsrennsli til lindarvatna verði nægt til að viðhalda vatnsrennslinu og því ríkulega lífríki og fiskgengd sem þar er að finna.“

Hlekkur á drónamyndband af þurrkasvæðinu í Grenlæk.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert