Sjóbleikjan í Hraunsfirði er svo sannarlega farin að gefa sig. Helgi Sigurðsson og félagi hans Þórarinn Þorbergsson voru þar í gær við veiðar og lönduðu á rúmum tveimur tímum tíu bleikjum og voru allar nema tvær á bilinu 45 til 55 sentímetrar.
Eins og Helgi lýsir sjálfur þá voru þeir við fyrsta tanga fyrir innan grjótgarðinn að vestanverðu. „Við vorum að veiða þetta á örlitla spinnera og fiskurinn var mjög nálægt landi. Við sáum fisk á fleiri stöðum og urðum varir. Það voru ekki svo margir veiðimenn á svæðinu en við sáum allavega einn landa fiski skammt frá okkur í hraunkantinum,“ sagði Helgi í samtali við Sporðaköst seint í gærkvöldi.
Hann þekki svæðið vel og fer oftast til veiða í hraunkantinum að austanverðu. Hann sagði að þegar þeir félagar voru að hætta skömmu fyrir kvöldmat í gær voru fleiri veiðimenn að mæta á svæðið.
Þetta er náttúrulega einn best matfiskur sem völ er á?
„Já, sammála því. Konan sér nú yfirleitt um eldamennskuna. Við höfum þetta einfalt. Oftast pönnusteikt upp úr smjöri.“
Hraunsfjörðurinn er inni í Veiðikortinu og er það frábær fjárfesting fyrir veiðimenn sem eru á ferðinni og tilbúnir að kynnast ýmsum veiðistöðum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |