JS Watch Company Reykjavik og Gilbert úrsmiður hafa kynnt nýtt úr framleitt í samstarfi við og fyrir staðarhaldara í Laxá í Aðaldal, þá bræður Hermóð og Árna Pétur Hilmarssyni.
Úrið er framleitt sérstaklega fyrir 30 punda klúbb Laxár í Aðaldal og er eingöngu fáanlegt fyrir þá sem hafa öðlast inngöngu í klúbbinn með því að veiða 30 punda eða stærri lax þar.
Laxá í Aðaldal er ein þekktasta stórlaxaá landsins en árið 1942 veiddist þar einn stærsti fluguveiddi lax Íslandssögunnar; 36 punda hængur, og er áin alla jafna talin helsta stórlaxaá Íslands.
Hugmyndin að sérstöku úri tileinkuðu 30 punda klúbbi Laxár í Aðaldal kviknaði einmitt við bakka árinnar fyrir nokkrum árum þegar JS-menn voru við veiðar með Hermóði Hilmarssyni staðarhaldara.
„Úrið er byggt á grunni hins rómaða Sif NART-úrs sem er í notkun hjá þyrlu, flugsveit, köfurum og sprengjusveit Landhelgisgæslu Íslands en úrið er vatnshelt niður á 1.000 metra dýpi og hannað sérstaklega fyrir erfiðar aðstæður og hefur því verið vinsælt hjá veiðimönnum.
Það er með fagurblárri sunburst-skífu, sjálflýsandi vísum og á bak þess er svo grafið merki 30 punda klúbbsins,“ segir Grímkell P. Sigurþórsson, yfirhönnuður og einn af eigendum JS Watch Company, þegar hann er beðinn að lýsa úrinu.
Skífuna á úrið hannaði Nils Folmer Jorgensen sem er vel þekktur stórlaxahvíslari. Nils er menntaður grafískur hönnuður með mikla reynslu og var það því vel við hæfi að fá hann til verksins.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |