Sumir laxar eru einfaldlega stórglæsilegir. Myndin sem fylgir þessari frétt er af hrygnu sem veiddist í síðasta holli í Víðidalsá og það verður að segjast eins og er að þetta eintak er fullkomið. Þessi 93 sentímetra hrygna veiddist í Dalsárósi, sem er einn frægasti veiðistaður Víðidalsár.
Björn Halldór Helgason veiddi þennan lax. Hann sagði í samtali við Sporðaköst að viðureignin hefði staðið í um 20 mínútur. „Hann tók Sunray, svona tommu langan með gulu ívafi. Ég vissi strax að þetta væri stór lax, en ég fékk einmitt maríulaxinn minn í Víðidalsá sumarið 2016. Það var hundrað sentímetra hængur sem ég veiddi í Harðeyrarstreng á þessum sama tíma,“ sagði Björn sem var býsna sáttur við laxinn úr Dalsárósi.
Veiðin í Víðidalsá hefur verið róleg eins og í öðru ám á Vestanverðu landinu og raunar öllum ám, nema Þjórsá. En við birtum þessa mynd til að gleðjast yfir þessu glæsilega eintaki. Sumir laxar eru einfaldlega flottari en aðrir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |