Heldur í von að smálax verði í meðallagi

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur heldur enn í vonina að smálaxagöngur …
Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur heldur enn í vonina að smálaxagöngur verði í meðaltali þó að hann sé að mæta óvenju seint. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, hefur rannsakað laxastofna á Vesturlandi, áratugum saman. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi, lítið af stórlaxi og smálaxinn virðist vera að koma óvenju seint, leituðu Sporðaköst til Sigurðar Más og báðu um hans álit á stöðunni.

„Þetta kemur í ljós á næstu tveimur vikum. Það eru þessir stóru straumar í hafinu sem eiga að dæla laxinum inn fyrir veiðitímabilið. Straumurinn sem er núna og sá sem er aðra vikuna í júlí. Ég er enn að halda í von um að að smálaxagöngurnar gætu orðið í meðallagi en þetta hlýtur að koma í ljós á næstu þremur til fjórum dögum í Borgarfjarðaránum og á Vesturlandi. Hann hlýtur að fara að ganga í einhverju magni á allra næstu dögum nema eitthvað stórkostlegt hafi gerst sem maður hefur ekki skýringu á.“

Sigurður Már viðurkennir að erfitt hafi verið að lesa í hlutina síðustu ár. „Þetta hafa verið mikil jójó-laxveiðisumur undanfarin á og gríðarleg óvissa fylgt þeim og mjög erfitt fyrir alla sem standa að þessu. Fiskifræðinga, stangveiðimenn og veiðifélög.“

Hann segir að miðað við þau gögn sem liggi fyrir þá líti út fyrir að þeir árgangar sem eigi að skila sér í smálaxi núna séu alveg alveg þokkalegir.

Sigurður Már, ásamt tveimur öðrum fiskifræðingum, er að vinna verkefni til að meta hvaða og hversu mikil áhrif þurrkasumar á borð við sumarið 2019 hafi á stofnstærð laxins. Það er ljóst að 2019 var hamfaraár þegar kemur að vatnsleysi fyrir lax í Borgarfirði og víðar. Sigurður segir að ljóst sé þeir árgangar sem voru í ánum hafi orðið fyrir afföllum líka, ekki bara stærstu seiðin.

„Smálaxinn í fyrra var vel haldinn, það sem kom af honum, og ljóst að hann hefur haft góðar aðstæður í hafinu. En við höfum ekki tölur fyrir útgöngu seiða 2019. Það er hins vegar ljóst í mínum huga að þeir miklu þurrkar höfðu áhrif á hversu mikið gekk út af seiðum.“

Árni Friðleifsson með fyrsta laxinn sem veiddist ofan Glanna. Þessi …
Árni Friðleifsson með fyrsta laxinn sem veiddist ofan Glanna. Þessi lax veiddist í Poka. Ljósmynd/Aðsend

Ef við horfum á stöðuna í Borgarfirði, þá er ljóst að í Norðurá er veiði að glæðast. Síðasta heila holl skilaði veiði upp á 51 lax og það er langbesta hollið í sumar. Fréttir hafa borist af góðri byrjun hjá því holli sem nú er að veiðum. Þá veiddist fyrsti laxinn ofan við fossinn Glanna í gær og er það jákvætt í stöðunni.

Laxá í Kjós greindi frá átta löxum í gær og dagurinn byrjaði vel.

Í Laxá í Dölum sáu veiðimenn dágóðar torfur ganga inn í Sjávarfljót og Matarpoll, en það hefur ekki skilað sér enn í veiðinni. Líklegt er þó að þessi fiskur gangi fljótlega upp ána. Veiðimenn sem voru þar í morgun, á neðsta svæðinu, fengu tvo laxa og voru þeir báðir glænýir en ekki lúsugir.

Enn er staðan samt óráðin og lítið að gerast í ánum norðan Holtavörðuheiðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert